Innlent

Bjuggust við þrjú hundruð manns í há­degis­mat

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Rósý Sigurþórsdóttir er forstöðukona Kaffistofu Samhjálpar.
Rósý Sigurþórsdóttir er forstöðukona Kaffistofu Samhjálpar. Stöð 2/Ívar F

Nokkur hundruð manns voru í jólamat hjá Samhjálp nú í hádeginu. Forstöðukona segir að aðsókn hafi aukist á kaffistofuna undanfarið, meðal annars vegna verðlagshækkana. Elísabet Inga kíkti við í morgun þegar jólaundirbúningur stóð sem hæst.

Mikil aukning hefur verið í aðsókn á kaffistofu Samhjálpar undanfarið en í morgun þegar fréttastofa kíkti við var von á allt að 300 manns í jólamatinn.

Kaffistofan er opin á milli tíu og tvö alla daga ársins. Í dag er boðið er upp á hamborgarhrygg, lambalæri, aspassúpu, meðlæti og svo ís í eftirrétt. Á morgun hangikjöt og kalkúnn.

„Við finnum það mikið alla daga hvað fólk er þakklátt fyrir að hafa þennan stað til þess að koma á,“ segir Rósý Sigurþórsdóttir, forstöðukona Kaffistofu Samhjálpar, í samtali við fréttastofu.

Rósý segir fjárstuðning hafa gengið vel undanfarið og hafa bæði einstaklingar og fyrirtæki hafa lagt Samhjálp lið.

„Við erum alveg sérstaklega þakklát fyrir þetta og mig langar að þakka sérstaklega öllum einstaklingum sem hafa komið á staðinn og fært okkur mat og föt,“ segir hún.

Gaf jólagjöfina áfram

Á dögunum barst Samhjálp til dæmis hrærivél frá hjartahlýrri konu.

Sagan á bak við það var að sú manneskja kom og gaf okkur mat um daginn, köku og það átti að vera þeyttur rjómi með henni en ég var ekki með neitt til að þeyta rjómann og hún þar af leiðandi bað manninn sinn um að gefa sér Kitchen aid vél í jólagjöf svo að hún gæti gefið okkur hana þannig að við gætum allavegana þeytt rjóma um jólin. Mjög fallegt, mjög dásamlegt,“ segir Rósý.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×