Erlent

Átök eftir mannskæða skotárás í París

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan hefur beitt táragasi til að reyn að brjóta upp mótmæli sem virðast hafa hafist þegar innanríkisráðherra Frakklands mætti á svæðið eftir skotárásina í morgun.
Lögreglan hefur beitt táragasi til að reyn að brjóta upp mótmæli sem virðast hafa hafist þegar innanríkisráðherra Frakklands mætti á svæðið eftir skotárásina í morgun. AP/Lewis Joly

Lögregluþjónar beittu táragasi gegn mótmælendum sem komu saman í París í dag eftir að eldri maður skaut þrjá til bana og særði þrjá til viðbótar í menningarmiðstöð Kúrda í borginni. Þegar innanríkisráðherra Frakklands mætti á vettvang braust út mikil reiði meðal fólks sem hafði komið þar saman.

Mótmælendur köstuðu hlutum að ráðherranum, sem heitir Gérald Darmanin, og lögregluþjónum og hefur komið til átaka milli lögreglunnar og mótmælenda.

Árásin átti sér stað í tíunda hverfi borgarinnar. 69 ára maður var yfirbugaður af borgurum eftir árásina en hann er sagður hafa verið vopnaður skammbyssu. Embættismenn segja ekki ljóst hvort maðurinn hafi ætlað sér að myrða Kúrda sérstaklega en hann leitaði sérstaklega uppi fólk af erlendum uppruna.

Maðurinn hefur tvisvar sinnum áður verið handtekinn vegna árása á fólk af erlendum uppruna. Fyrst í fyrra þegar hann er sagður hafa ráðist með sveðju á fólk í tjaldbúðum í París og svo aftur í úthverfi Parísar fyrir skömmu síðar. Upplýsingar um seinni handtökuna liggja ekki fyrir.

France24 segir að Kúrdar í París hafi sagt að lögreglan hafi varað samfélagið við því að hótanir hefðu borist. Miðillinn hefur eftir fólki á svæðinu að Kúrdum finnist þau ekki njóta verndar yfirvalda í Frakklandi.

Blaðamaður Le Parisien tók meðfylgjandi myndband í París í dag.

Le Parisien hefur eftir lögreglunni að ástandið þyki slæmt og að lögregluþjónar hafi verið króaðir af.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×