Innlent

„Það var ekki mikill hljóm­grunnur fyrir okkar sjónar­miðum“

Atli Ísleifsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að samninganefnd Eflingar muni nú funda og ráða ráðum sínum.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að samninganefnd Eflingar muni nú funda og ráða ráðum sínum. Vísir/Vilhelm

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að Samtök atvinnulífsins hafi ekki fallist á það tilboð sem Efling hafði gert þeim. Það hafi verið niðurstaða fundarins sem fram fór í húsnæði ríkissáttasemjara í morgun. „Það var ekki mikill hljómgrunnur fyrir okkar sjónarmiðum,“ segir Sólveig Anna.

Sólveig Anna segir að Efling hafi kynnt samninganefnd SA ítarlega það tilboð sem var gert í gær. Þar hafi hagvaxtaraukinn verið tekinn inn í launaliðinn, líkt og önnur félög hafi gert. Á móti kæmi sérstök framfærsluuppbót til Eflingarfólks.

„Það var ekki mikill hljómgrunnur fyrir okkar sjónarmiðum,“ sagði Sólveig Anna að loknum fundinum í morgun.

„Upphæðirnar sem við förum fram á eru hærri en undirritaðar voru hjá Starfsgreinasambandinu en þær eru ekki hærri en í öðrum samningum. Það er alls ekki svo. [...] Við erum að leggja hér fram tilboð þar sem hæsta hækkunin er tæplega 66 þúsund. Þeir samningar sem náðst hafa og hafa verið samþykktir hjá iðnaðarmönnum og verslunarmönnum, þar er einmitt hæsta hækkunin 66 þúsund. Þannig að við erum að vinna með þær nálganir sem niðurstaða hefur náðst um á vinnumarkaði.“

Hún segir að enn hafi ekki verið boðað til næsta fundar, en að ef ríkissáttasemjari boði nefndir á fund, til dæmis milli jóla og nýárs, þá mæti Eflingarfólk.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á fundinum í morgun.Vísir/Vilhelm

Ætla að ráða ráðum sínum

Sólveig Anna segir að samninganefnd Eflingar muni nú funda og ráða ráðum sínum. Hún ætli ekki að svara neitt ítarlegar fyrr en niðurstaða samninganefndar liggur fyrir.

„Það hvort við missum afturvirknina... Nei, ég hræðist það ekki , enda væri það fráleitt að refsa sérstaklega verka- og láglaunafólki höfuðborgarsvæðisins, sem knýr hér áfram hjól hagvaxtarins og heldur hér öllu gangandi, fyrir að standa í öflugri kjarabaráttu. Ég vona að menn séu ekki svo langt leiddir að þeir láti detta það til hugar.“

Viðar Þorsteinsson og aðrir í samninganefnd Eflingar.Vísir/Vilhelm

Hvað þegar komið er nokkrar vikur inn í nýtt ár, eruð þið þá farin að huga að aðgerðum ef ekki verða samningar komnir?

„Aftur, nú fer ég á fund með samninganefndinni. Ég ætla ekkert að fabúlera neitt meira um það hvað gerist innan næstu vikna. Það bara kemur í ljós,“ segir Sólveig Anna.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×