Innlent

Myrkrið byrjar að hopa eftir stysta dag ársins

Kjartan Kjartansson skrifar
Skuggavera á vappi við Elliðavatn skömmu eftir sólarupprás á stysta degi ársins.
Skuggavera á vappi við Elliðavatn skömmu eftir sólarupprás á stysta degi ársins. Vísir/Vilhelm

Vetrarsólstöður á norðurhveli verða klukkan 21:48 í kvöld og byrjar daginn nú að lengja aftur. Dagurinn í Reykjavík er aðeins rétt rúmar fjórar klukkustundir og á Akureyri rúmir þrír tímar.

Á þessum stysta degi ársins á norðurhveli jarðar rís sólin í Reykjavík klukkan 11:21 en gengur til viðar rétt rúmum fjórum tímum síðar, klukkan 15:31 samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofu Íslands. Myrkur skellur á klukkan 16:48. Á Akureyri er dagurinn enn styttri. Þar rís sól klukkan 11:38 en sólarlag er klukkan 14:44. Þar er orðið myrkur klukkan 16:19.

Á næstum dögum byrjar daginn að lengja, þó aðeins um nokkrar sekúndur fyrst um sinn en svo mínútur. Hann verður orðinn jafnlangur nóttunni á vorjafndægrum 20. mars. Kaldasti tími ársins er þó enn framundan. Þó að framboð á sólarljósi aukist nú eru janúar og febrúar að jafnaði köldustu mánuðir ársins.

Orsök svartnættisins og árstíðanna almennt eru sú að möndull jarðar, ásinn sem hún snýst um, hallar um 23,5 gráður miðað við sporbraut hennar um sólina. Hallinn helst alla brautina í kringum sólina og í sömu átt þannig að magn sólarljóss á hverjum stað breytist eftir því hvar jörðin er stödd á braut sinni. Vetur gerir á norðurhveli þegar það hallar frá sólinni. Á sama tíma hallar suðurhvelið að sólinni og þar er sumar.

Kaldhæðnislega fyrir okkur á norðurhjara veraldar er jörðin aldrei nær sólinni en á þessum árstíma. Eins og Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, bendir á ferðast jörðin ögn hraðar um sólina en á sumrin. Því er veturinn, skilgreindur sem tíminn milli vetrarsólstaða og vorjafndægurs, stysta árstíðin. Hann er 89 dagar, fjórum dögum styttri en sumarið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×