Fótbolti

Argentínsk yfirvöld gefa landsmönnum frí til að fagna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gleðin meðal argentínsku þjóðarinnar var ósvikin eftir að fótboltalandsliðið tryggði sér heimsmeistaratitilinn.
Gleðin meðal argentínsku þjóðarinnar var ósvikin eftir að fótboltalandsliðið tryggði sér heimsmeistaratitilinn. getty/Rodrigo Valle

Ríkisstjórn Argentínu hefur ákveðið að gefa landsmönnum frí í dag til að fagna heimsmeistaratitlinum sem fótboltalandsliðið vann í fyrradag.

Argentína varð heimsmeistari í þriðja sinn eftir sigur á Frakklandi í vítaspyrnukeppni, 4-2, á sunnudaginn. Þar með lauk 36 ár bið Argentínumanna eftir heimsmeistaratitli, eða síðan Diego Maradona leiddi þá til fyrirheitna landsins í Mexíkó 1986.

Heimsmeistararnir komu til Argentínu í gær og munu fagna titlinum við Obelisk minniverkið í Búenos Aires í dag eins og venjan er þegar Argentínumenn fagna stórum sigrum á íþróttasviðinu.

Argentínska ríkisstjórnin vill að sem flestir geti fagnað með heimsmeisturunum og hefur því gefið landsmönnum frí í dag.

Argentína er annað landið sem gefur frí til að fagna sigri á HM. Yfirvöld í Sádí-Arabíu gáfu einmitt frí eftir að liðið vann Argentínu í 1. umferð riðlakeppninnar, 2-1. Samkvæmt tölfræðiveitunni Gracenote var það óvæntasti sigur í sögu heimsmeistaramótsins. Fall reyndist hins vegar fararheill fyrir Argentínumenn.

„Ég vil vera í Argentínu til að sjá hversu brjálað allt er. Ég vil að fólkið bíði eftir mér. Ég get ekki beðið eftir því að komast þangað og fagna með fólkinu,“ sagði Lionel Messi, fyrirliði Argentínu, eftir úrslitaleikinn gegn Frakklandi í fyrradag. Messi skoraði sjö mörk á HM og var valinn besti leikmaður mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×