Fótbolti

Martínez með dólg: „Höfum mínútu þögn fyrir Mbappé“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Katarskur embættismaður fylgist skelfingu lostinn með aðförum Emilianos Martínez.
Katarskur embættismaður fylgist skelfingu lostinn með aðförum Emilianos Martínez. getty/Heuler Andrey

Emiliano Martínez var í miklum ham þegar Argentína varð heimsmeistari í þriðja sinn í gær eftir sigur á Frakklandi í vítaspyrnukeppni. Eftir leikinn stráði hann salti í frönsk sár.

Martínez varði frábærlega frá Randal Kolo Muani í uppbótartíma framlengingarinnar og svo spyrnu Kingsleys Coman í vítakeppninni. Hann var svo valinn besti markvörður HM eftir leikinn og lék sér á athyglisverðan hátt með verðlaunagripinn.

Martínez hélt áfram að vera með dólg inni í búningsklefa þar sem Argentínumenn fögnuðu heimsmeistaratitlinum. 

Áður en hann hóf að stýra fögnuðinum ákvað hann að strá salti í sár Frakka. „Höfum mínútu þögn fyrir Mbappé sem er allur,“ sagði Martínez um Kylian Mbappé sem skoraði þrennu í leiknum. Hann varð þar með annar leikmaðurinn til að skora þrjú mörk í úrslitaleik HM á eftir Geoff Hurst sem afrekaði það þegar England vann Vestur-Þýskaland, 4-2, fyrir 56 árum.

Aðeins eitt og hálft ár er síðan Martínez lék sinn fyrsta landsleik. Síðan þá hefur hann hjálpað Argentínumönnum að vinna Suður-Ameríkukeppnina og HM.

Martínez leikur með Aston Villa sem fær Liverpool í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni á öðrum degi jóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×