Búið er að kveða upp úrskurð í máli beggja manna. Annar mannanna var í síðustu viku ákærður fyrir skipulagningu hryðjuverka og hinn fyrir aðild að skipulagningu hryðjuverka. Þeim var í kjölfar þess sleppt úr haldi þar sem Landsréttur taldi mennina ekki vera hættulegir sér eða öðrum.
Fréttastofa náði tali af Sveini Andra Sveinssyni, lögmanni annars mannsins, í héraðsdómi eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp. Hann segir næstu skref velta á því hvað héraðssaksóknari gerir.
„Hann tók sér frest til að ákveða það hvort þessum úrskurði yrði unað eða honum skotið til Landsréttar. Ef þetta stendur svona óbreytt þá má segja að málið fari í hinn hefðbundna farveg sakamáls hér fyrir dómnum,“ segir Sveinn Andri.
Óskað var eftir gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna en til þess að það fari í gegn þarf að vera sterkur grunur um að almenningur hafi hagsmuni á því að einstaklingurinn sé í gæsluvarðhaldi. Aðspurður segir Sveinn Andri að hann vonist til þess að þetta létti aðeins á skjólstæðingi sínum.
„Hann er bara í foreldraranni, nánast í gjörgæslu hjá þeim. Þetta hefur verið gríðarlegt álag á hann og ég vona að þetta létti aðeins á honum,“ segir Sveinn Andri.
Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort niðurstaðan verði kærð til Landsréttar.
Fréttin hefur verið uppfærð.