Fótbolti

Lyon vann í London | Miedema mögu­lega illa meidd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lyon vann góðan sigur á Emirates í kvöld.
Lyon vann góðan sigur á Emirates í kvöld. Gaspafotos/Getty Images

Evrópumeistarar Lyon fóru til Lundúna í kvöld og sóttu þrjú stig í greipar Arsenal. Til að bæta gráu ofan á svart þá fór hollenska markamaskínan Vivianne Miedema illa meidd af velli. Óvíst er hversu lengi hún verður frá.

Aðeins eitt mark var skorað á Emirates vellinum í Lundúnum í kvöld. Frida Leonhardsen-Maanum varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark undir lok fyrri hálfleiks og reyndist það eina mark leiksins, lokatölur 0-1.

Þetta var fyrsta tap Arsenal í riðlinum og þá eru það gríðarlega slæmar fréttir fyrir Skytturnar að þeirra helsta skytta hafi farið meidd af velli.

Í hinum leik C-riðils þá vann Juventus 5-0 sigur á Zürich. Sara Björk Gunnarsdóttir var ekki í leikmannahóp Juventus í kvöld.

Þar sem Lyon vann Arsenal þá eru það efstu tvö lið C-riðils með 10 stig að loknum fimm leikjum á meðan Juventus er með 8 stig.

Í D-riðli vann Barcelona 6-2 sigur á Benfica þar sem Cloé Lacasse – sem lék á sínum tíma með ÍBV – skoraði annað mark Benfica í leiknum. Markið var einkar glæsilegt og má sjá hér að neðan. Lacasse var þarna að skora í fjórða Meistaradeildarleiknum í röð.

Lokatölur 6-2 í mögnuðum leik þar sem Benfica klúðraði tveimur vítaspyrnum. Sigur Barcelona þýðir að Íslendingalið Bayern München er komið í 8-liða úrslit ásamt Barcelona. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×