Fótbolti

Tite hættur með brasilíska landsliðið eftir tapið gegn Króatíu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tite er hættur sem þjálfari brasilíska landsliðsins.
Tite er hættur sem þjálfari brasilíska landsliðsins. Alex Grimm/Getty Images

Tite hefur sagt starfi sínu sem knattspyrnustjóri brasilíska landsliðsins lausu eftir að liðið féll úr leik á heimsmeistaramótinu í Katar eftir tap í vítaspyrnukeppni gegn Króatíu.

Tite tók við sem knattspyrnustjóri brasilíska landsliðsins árið 2016. Undir stjórn Tite vann Brasilía einn titil, Copa América árið 2019. Það var í níunda skipti sem Brasilía vann titilinn, en liðið hafði ekki unnið Copa América í 12 ár.

Þrátt fyrir að hafa ekki raðað inn titlum í stjórnartíð Tite hefur brasilíska liðið átt góðu gengi að fagna. Liðið lék 81 leik undir hans stjórn og voru sigrarnir 60 talsins. Undir stjórn Tite tapaði liðið aðeins sex leikjum og skoraði 172 mörk, en fékk aðeins á sig 30.

Eins og áður segir tók Tite við brasilíska liðinu árið 2016 og samningur hans gilti út heimsmeistaramótið sem nú fer fram. Í febrúar á þessu ári gaf hann það svo út að hann myndi stíga til hliðar að mótinu loknu, sama hver árangurinn yrði.

Nú þegar Brasilía hefur lokið leik á HM er því orðið ljóst að Tite hefur lokið störfum sem þjálfari brasilíska landsliðsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.