Litlu jólin fóru fram í íþróttaleikhúsinu þar sem hljómsveit og söngkonur sungu jólalög og íbúar Sólheima tóku undir í söngnum. Bjúgnakrækir mætti og heilsaði upp á gesti. Þetta var í sextugusta og fimmta sinn, sem Lionsklúbburinn Ægir stóð fyrir Litlu jólunum með hangikjötsveislu fyrst og svo skemmtuninni.
„Hér komum við alltaf sama liðið, hljómsveitin og einhverjir gestir með okkur og syngjum saman jólalögin og svo eru skemmtiatriði og þess háttar,“ segir Magnea Tómasdóttir söngkona og velunnari Sólheima.
Á þessum 65 ára tímamótum var ákveðið að gefa út geisladisk, sem heitir „Litlu jólin á Sólheimum“ en þar er að finna öll helstu lögin, sem hafa verið spiluð á litlu jólunum í öll þessi ár.

„Afrakstur af honum á að fara í hljóðfærasjóð Sólheima því hér er mikið tónlistarstarfi og ef maður á ekki geisladiska spilara þá er svona lítill miði á disknum með link, sem hægt er að hlaða niður í tölvuna sína og notið á aðventunni,“ segir Magnea enn fremur.

Og Ómar Ragnarsson mætti og tók nokkur lög á litlu jólunum.
„Það eru engin jól nema að maður komi á Sólheima, það er bara þannig, er og verður á meðan það lifir,“ segir Ómar.
En hvað er best við þennan Sólheima?
„Mér finnst best við þennan stað það, sem fólk reynir og kemst langt í að rækta anda Sesselju. Andi Sesselju er stórkostlegt ljós, sem lýsir öllum, sem vilja kynna sér það eða ímynda sér hvernig það hafi verið að basla hérna með börnin sín,“ segir Ómar.
