Innlent

Móttaka flóttamanna á Austurlandi gengur einstaklega vel

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, sem er mjög ánægð með hvernig til hefur tekist með móttöku flóttamanna á Austurlandi.
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, sem er mjög ánægð með hvernig til hefur tekist með móttöku flóttamanna á Austurlandi. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Flóttamönnum frá Úkraínu, sem búa nú á Eiðum býðst nú allskonar atvinna á Austurlandi. Forseti sveitarstjórnar Múlaþings vonar að fólkið verði ekki lengi á Eiðum, heldur komi inn í samfélagið, sem fyrst, hvort sem það er í Múlaþingi eða Fjarðabyggð.

Í dag eru um 30 flóttamenn búsettir á Eiðum. Móttaka fólksins hefur tekist einstaklega vel og mikil ánægja hjá fólkinu sjálfu með allan aðbúnað á staðnum. Jónína Brynjólfsdóttir, segir næga atvinnu fyrir flóttafólkið að hafa á Austurlandi.

„Ég veit ekki betur en að fyrirtæki hér á svæðinu séu búin að vera að taka flóttamennina okkar í viðtöl hist og her því mér skilst að þeim standi margvísleg atvinna í boði því hér er gríðarlegur skortur á vinnuafli. Þannig að ég held að flestir atvinnurekendur hafi tekið þeim fagnandi og hér standi til boða atvinna og mögulegt húsnæði þannig að það eru vonir okkar að þau staldri ekki lengi við á Eiðum heldur komi sem fyrst inn í samfélögin okkur hvort sem það er í Múlaþingi eða Fjarðabyggð,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Jónína segir að sveitarstjórnarfólk sé mjög stolt af móttöku flóttamannanna á Eiðum.

„Við erum bara vongóð um það að þau komist hér inn í samfélagið. Auðvitað eru áskoranir, sem fylgja þessu. Það er mikilvægt að við höldum vel utan um þá sem koma og að við tökum ekki að okkur allt of marga, sem sum sveitarfélög hafa verið að lenda í. Við viljum að þau aðlagist samfélaginu, það er verkefni, það er ekki nóg að þau fái atvinnu, það þarf að fylgja þeim eftir víðs vegar. Það þarf að koma þeim á tungumálanámskeið og annað og það er bara verkefni, sem við stöndum frammi fyrir núna og erum að vinna í.“

Og þið eruð tilbúin að taka á móti fleiri flóttamönnum eða?

„Já, já, við treystum okkur til að taka á móti fleirum en við setjum þann fyrirvara á að við viljum gera það vel og þá þýðir það að við tökum ekki allt of marga og ekki allt of geyst.“

Flóttamennirnir eru smátt og smátt að aðlaga sig að samfélaginu á Austurlandi, til dæmis í Múlaþingi.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.