Innlent

Vonast til að komast aftur heim til Rússlands

Samúel Karl Ólason og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Olga, Masha, Diana og Taso úr hljómsveitinni Pussy Riot.
Olga, Masha, Diana og Taso úr hljómsveitinni Pussy Riot. Vísri/Ívar

Rússneska pönksveitin Pussy Riot hélt í gær sýningu í Þjóðleikhúsinu. Þessa sýningu flokkuðu þær sem tónleika, gjörningalist og pólitískan viðburð. Sýningin var hluti af sýningarferð sem þær fara nú um Evrópu.

Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri, sagði það heiður að fá Pussy Riot í Þjóðleikhúsið. Þær væru með merkustu listamönnum samtímans og þær hefðu gefið allt fyrir listina. Það hefði verið sagt að þeirra gjörningar væru með merkustu pólitísku viðburðum í heiminum.

Masha, Taso, Olga og Diana ræddu við Stöð 2 í gærkvöldi og sögðu þær meðal annars frá yfirlitssýningu sem stendur yfir í Kling & Bang á Granda þar sem farið er yfir feril hljómsveitarinnar.

Þær sögðu sýninguna fanga sögu Pussy Riot, allt frá því þær héldu fyrsta gjörning þeirra á Rauða torginu þar til Masha slapp úr fangelsi í Rússlandi, eftir að hún sat þar inni í tvö ár.

Sýningin inniheldur meðal annars myndbönd frá gjörningum þeirra og lög hljómsveitarinnar.

Þær sögðu einnig að ástandið í Rússlandi hefði aldrei verið verra en nú, á lífstíð þeirra, og það versnaði sífellt meira.

Meðlimir hljómsveitarinnar segjast standa með Úkraínu vegna innrásar Rússa og segja að allir peningar sem safnist með sýningarferðinni um Evrópu muni fara til barnasjúkrahúss í Kænugarði.

Þær flúðu Rússland þegar innrásin hófst en segjast vonast til þess að geta snúið aftur. Rússland sé heimaríki þeirra. Þær vita ekki hvenær þær munu geta snúið aftur heim, en eru vissar um að það muni gerast.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.