Innlent

346 manns sektaðir vegna nagla­dekkja­notkunar á síðustu fimm árum

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Ólöglegt er að vera á nagladekkjum í Reykjavík eftir 15. apríl.
Ólöglegt er að vera á nagladekkjum í Reykjavík eftir 15. apríl. vísir/anton brink

Á undanförnum fimm árum hafa rúmlega 350 ökumenn verið sektaðir vegna nagladekkjanotkunar hér á landi.

Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrés Inga Jónssonar þingmanns Pírata nú á dögunum.

Samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja, er ekki heimilt að nota nagladekk á tímabilinu 15. apríl til 31. október ár hvert nema þess sé þörf vegna akstursaðstæðna.

Fram kemur í svari Jóns að á tímabilinu 2018- 2022 var engin sekt gefin út fyrstu tvær vikur eftir að bann tók gildi og síðustu tvær vikur áður en bannið rann út.

Veðurskilyrði hafa áhrif

Einnig var spurt hvaða lögreglustjóraembætti hafa tilkynnt önnur tímamörk varðandi nagladekkjanotkun en kveðið er á um í reglugerð á sama tímabili.

Fram kemur að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur tilkynnt að sektum verði ekki beitt vegna notkunar á nagladekkjum þar sem veðurskilyrði séu með þeim hætti að þörf sé á að hjólbarðar séu búnir með tilhlýðilegum hætti. Umferðardeild embættisins fylgist með veðurskilyrðum að teknu tilliti til umferðaröryggis og kemur tilkynningum á framfæri þegar við á.

Þá hefur embætti lögreglustjórans á Suðurlandi gefið út tilkynningu um önnur tímamörk varðandi nagladekkjanotkun, sbr. tilkynningu embættisins í ár þess efnis að ekki yrði sektað þrátt fyrir að ökumenn væri komnir á nagladekk 13. október 2022. Sérstakar dagsetningar hafa ekki verið skráðar um þessi mörk og veðurfarslegar og landfræðilegar aðstæður hverju sinni ráðið nokkru þar um. Ákvörðunin byggðist á mati yfirmanna lögreglu í umdæminu.

Þá hefur embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra í einhverjum tilvikum sl. ár gefið út tilkynningar þess efnis að ekki verði sektað fyrir notkun nagladekkja á tilteknu tímabili fyrir 31. október, þegar slæm akstursskilyrði hafa verið farin að myndast sökum hálku og ófærðar, sem og í ljósi slæmrar veðurspár. Önnur embætti hafa ekki gefið út tilkynningar um önnur tímamörk vegna nagladekkjanotkunar en mælt er fyrir um í lögum og reglum.


Tengdar fréttir

Þýðing nagla­dekkja­gjalds?

Síðustu daga hefur umræða um svokallað „nagladekkjagjald“ litið dagsins ljós eftir að Umhverfisstofnun viðraði hugmyndir um slíkt gjald. Sú hugmynd gengur út á það að sveitarfélögum verði veitt heimild til að rukka ökumenn um gjald þegar þeir keyra á vegum þess á nagladekkjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×