Innlent

Bæjarstjórn kaus milliveginn sem vegstæði við Dynjanda

Kristján Már Unnarsson skrifar
Svona er gert ráð fyrir að gatnamótin verði að fossinum Dynjanda. Til vinstri sést hvernig leggja á veginn upp úr Búðavík í Dynjandisvogi. Til hægri sést veglína upp Dynjandisdal.
Svona er gert ráð fyrir að gatnamótin verði að fossinum Dynjanda. Til vinstri sést hvernig leggja á veginn upp úr Búðavík í Dynjandisvogi. Til hægri sést veglína upp Dynjandisdal. Vegagerðin

Niðurstaða virðist fengin um hvernig Vestfjarðavegur verður lagður við fossinn Dynjanda en tekist var á um tvær mismunandi veglínur í gegnum friðlandið. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar valdi að fara milliveginn.

Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um fyrirhugaða vegagerð í Dynjandisvogi í Arnarfirði. Fossinn Dynjandi og umhverfi hans eru friðlýst og því er ný vegarlagning þar vandmeðfarin.

Svona verður veglínan um Búðavík, samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.Vegagerðin

Vegagerðin hafði í umhverfismati kynnt tvær leiðir sem báðar höfðu sína galla. Önnur tillagan var að fylgja núverandi vegstæði, sem þýddi að fornminjar í Búðavík færu undir veginn við breikkun hans, auk þess sem krappar beygjur myndu haldast. Hin tillagan var að skera nýjan veg upp í fjallshlíðina ofan Búðavíkur, sem þýddi talsvert rask í hlíðinni en beinni veg.

Nýr vegur fyrir Meðalnes liggur núna í fjöruborðinu. Gamli vegurinn, ofarlega til vinstri, lá uppi í hlíðinni. Verkefnið framundan er að endurbyggja veginn um Dynjandisvog.Arnar Halldórsson

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur núna samþykkt að fara milliveginn; það er málamiðlun sem Vegagerðin hafði kynnt; að fylgja núverandi vegstæði að mestu en færa veginn örlítið ofar í brekkuna í Búðavík, hlífa fornu búðatóftunum þar í fjöruborðinu, og skera veginn upp í klettana í víkinni.

Þannig tekst að gera veginn meira aflíðandi og fækka kröppum beygjum. Gatnamótin að Dynjanda færast jafnframt örlítið norðar.

Leiðin um Dynjandisdal. Veglínan fylgir að mestu núverandi vegi.Vegagerðin

Um Dynjandisdal upp með Svíná er gert ráð fyrir að fylgja núverandi veglínu að mestu, vegurinn þó réttur af á einum kafla og ein beygja tekin þar af. 

Mesta breytingin verður efst við Afréttarvatn þar sem valin er ný veglína á tveggja og hálfs kílómetra kafla þar sem vegurinn fer upp á Dynjandisheiði.

Mesta breyting veglínu verður við Afréttarvatn.Vegagerðin

Og þeir sem standa á efstu fossbrún Dynjanda, svona munu þeir sjá til vegarins undir fjallshlíðinni fjær.

Sjónarhorn af fossbrún Dynjanda.Vegagerðin

Frestur til að gera athugasemdir við aðalskipulagsbreytinguna er til 8. desember.

Hvenær ráðist verður í vegagerðina er hins vegar óvíst en það skýrist væntanlega með næstu samgönguáætlun á nýju ári.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Vegagerðin býður út langan vegarkafla á Dynjandisheiði

Þrettán kílómetra langur vegarkafli á hæsta hluta Dynjandisheiðar verður boðinn út á morgun. Samtímis er Vegagerðin að skoða málamiðlun að nýju vegstæði við fossinn Dynjanda til að hlífa sem mest bæði landslagi og fornminjum.

Klæðning lögð um Pennudal áleiðis upp á Dynjandisheiði

Klæðningarflokkur frá Borgarverki, undirverktaka ÍAV, hóf í morgun að leggja fyrri umferð bundins slitlags á kafla Vestfjarðavegar um Pennudal, eða Penningsdal, ofan Flókalundar í Vatnsfirði. Þetta er vegarkafli sem opnaður var umferð í nóvember en ekki náðist þá að klæða hann fyrir veturinn vegna óhagstæðs veðurs.

Ísfirðingar komast langleiðina að Dynjanda á bundnu slitlagi

Nýr vegarkafli í Arnarfirði með bundnu slitlagi var opnaður umferð eftir hádegi í dag. Hann er 4,3 kílómetra langur milli Mjólkárvirkjunar og fossins Dynjanda. Vegurinn um Meðalnes og Mjólkárhlíð færist við þetta úr fjallshlíðinni og niður undir fjöruborð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×