Útköllin komu með stuttu millibili upp úr klukkan eitt í nótt.Vísir/Vilhelm
Slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út upp úr klukkan eitt í nótt eftir að reyksprengju var kastað inn um rúðu einbýlishúss í Fossvogi í Reykjavík. Um svipað leyti kom útkall vegna tilraunar til að kasta eldsprengju í einbýlishús í Hafnarfirði.
Þetta segir varðstjóri hjá slökkviliði í samtali við Vísi. Hann segir að lögregla hafi óskað eftir aðstoð slökkviliðs vegna málanna tveggja.
Í tilviki eldsprengjunnar í Hafnarfirði segir varðstjóri að eldsprengjan hafi ekki náð að húsinu.
Hann segist ekki vita til þess hvort að málin tengjast átökum hópa í kjölfar árásarinnar á Bankastræti Club í miðborg Reykjavíkur síðasta fimmtudagskvöld þar sem þrír særðust.
Í kjölfar árásarinnar hafa hótanir gengið milli manna og fréttir borist af notkun bensínsprengja og brotnum rúðum á heimilum manna sem tengjast hópunum og fjölskyldum þeirra.
Myndbönd úr öryggismyndavélum Bankastræti Club frá því að hnífstunguárás var framin þar á aðfaranótt föstudags eru í dreifingu. Þar má sjá að árásin tók ekki meira en mínútu frá því að fyrstu menn ruddust inn þar til allir voru búnir að hlaupa út.
Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir það vel þekkt að hópar í undirheimum hóti fjölskyldumeðlimum hver annars. Hann man þó ekki eftir eins umfangsmiklum átökum og hafa myndast í kring um hnífstunguárásina á Bankastræti Club. Fjölskyldumeðlimir mannanna sem hafa verið handteknir grunaðir um árásina hafa sætt stöðugum hótunum og árásum síðan og einhverjir hafa flúið út á land vegna ástandsins.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.