Fótbolti

„Ég skil bara ekki hvernig mér tókst ekki að skora“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andreas Cornelius skallaði í stöngina úr þessu sannkallaða dauðafæri.
Andreas Cornelius skallaði í stöngina úr þessu sannkallaða dauðafæri. Getty/Evrim Aydin

Klúður heimsmeistarakeppninnar til þessa á líklegast danski framherjinn Andreas Cornelius í markalausu jafntefli Dana og Túnismanna.

Cornelius hafði komið inn á sem varamaður til að reyna að ná inn sigurmarkinu. Hann fékk heldur betur tækifærið til þess.

Cornelius fékk boltann á markteignum en skallaði boltann í stöngina fyrir framan opnu marki. Hann svaf örugglega ekki mikið í nótt því Dönum tókst ekki að skora í leiknum.

„Ég veit ekki hvað gerðist þarna. Ég reyndi bara að koma hausnum í boltann en náði ekki að hitta hann almennilega,“ útskýrði Andreas Cornelius í viðtali eftir leikinn.

„Ég skil bara ekki hvernig mér tókst ekki að skora en það var líka furðulegt hvernig ég komst í þetta færi. Boltinn fór í gegnum svo marga. Þetta var laus bolti og hann kom óvænt til mín. Það var samt skrýtið að ég hafi ekki náð að koma honum í markið af svo stuttu færi,“ sagði Cornelius.

„Ég hef klúðrað þúsundum færa á mínum fótboltaferli og ætla því ekki að gráta þetta,“ sagði Cornelius og hló. Hér fyrir neðan má myndir af þessu ótrúlega færi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×