Innlent

Lögregla telur sig vita uppruna skilaboða sem eru í mikilli dreifingu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn fer fyrir rannsókn á hnífaárás á Bankastræti Club í síðustu viku.
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn fer fyrir rannsókn á hnífaárás á Bankastræti Club í síðustu viku. vísir/egill

Skilaboð um yfirvofandi hefndarárás vegna átaka í undirheimunum ganga nú manna á milli á samfélagsmiðlum. Fjölmargir hafa haft samband við fréttastofu vegna skilaboðanna. Fréttastofu er ekki kunnugt um uppruna skilaboðanna en í þeim er fólk varað við því að fara í miðbæinn næstu helgi vegna mögulegrar árása.

Málið er talið tengjast deilum tveggja hópa í tengslum við hnífaárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club í síðustu viku. Á þriðja tug hafa verið handtekin í tengslum við málið og á annan tug sætir gæsluvarðhaldi.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu sem fer fyrir rannsókn á hnífaárásinni á Bankastræti Club, sagði í samtali við Fréttablaðið að lögregla telji sig vita hvaðan skilaboðin komi.

Þá segir Margeir í samtali við Vísi að skilaboðin séu litin alvarlegum augum. Þau séu þess efnis að lögreglan sé með þau í skoðun. Skilaboðin verða metin og síðan komi lögreglan til með að bregðast við með viðeigandi ráðstafanir. 

Ekki verði upplýst um það hvernig eða hvort einhver viðbrögð verði.

Lúkas Geir og John Sebastian vinur hans á Landspítalanum þangað sem þeir voru fluttir eftir hnífaárásina. Þeir lýstu atburðarásinni frá þeirra sjónarhorni í útvarpsþætti Gústa B á FM957.

Lúkas Geir Ingvarsson, nítján ára piltur og einn þriggja sem slasaðist í hnífsstunguárásinni, gefur lítið fyrir þessi skilaboð í færslu á Instagram. Hann segir fólki að hætta að senda sér skjáskot.

„Þetta er augljóslega kjaftæði. Skil ekki hvernig fólk nennir þessu. Og að fólk myndi virkilega trúa þessu,“ segir Lúkas Geir.

Fréttin var uppfærð með viðbrögðum Margeirs Sveinssonar.


Tengdar fréttir

Tæp­lega þrjá­tíu verið hand­tekin en tveggja enn leitað

Lögreglan hefur handtekið 27 manns í tengslum við rannsókn á hnífstunguárás á Bankastræti Club á aðfaranótt föstudags í síðustu viku. Tíu þeirra hefur verið sleppt úr haldi en lögreglan leitar enn að tveimur einstaklingum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×