Innlent

Hlaut viður­kenningu fyrir ó­bilandi trú sína á ungu fólki

Eiður Þór Árnason skrifar
Ellen Calmon, framkvæmdastýra Barnaheilla, Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Harpa Rut Hilmarsdóttir, stjórnarformaður Barnaheilla.
Ellen Calmon, framkvæmdastýra Barnaheilla, Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Harpa Rut Hilmarsdóttir, stjórnarformaður Barnaheilla. Barnaheill

Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs hlaut í dag viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2022. Um er að ræða árlega viðurkenningu sem veitt er fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember.

Að sögn Barnaheilla hefur Össur í störfum sínum veitt miklum fjölda barna og ungmenna innblástur og hvatningu. „Hann hefur óbilandi trú á ungu fólki og einstakt lag á að laða fram það besta í hverju og einu barni. Hann leggur áherslu á samvinnu á meðal nemenda í störfum sínum og kallar fram jákvæðan aga, metnað og samkennd,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Afhending viðurkenningarinnar fór fram í veislusal veitingastaðarins Nauthóls klukkan 15.00 í dag og er ætlað að vekja athygli á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Sáttmálinn er sagður leiðarljósið í öllu starfi Barnaheilla.

Harpa Rut Hilmarsdóttir, formaður Barnaheilla flutti ávarp á athöfninni og tilkynnti hver hlyti viðurkenninguna en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands afhenti viðurkenninguna. Þá flutti Svanlaug Böðvarsdóttir, nemandi í Fellaskóla atriði úr Skrekk sem ber heitið „Skrekkur og Fellaskólafordómar“ og Skólahljómsveit Kópavogs flutti tónlistaratriði. Bergrún Íris Sævarsdóttir, stjórnarkona Barnaheilla stýrði athöfninni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×