Innlent

Þorlákshöfn byggist svo ört að hún segist varla rata orðið um þorpið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Katrín Stefánsdóttir, eigandi veitingahússins Svarta sauðsins.
Katrín Stefánsdóttir, eigandi veitingahússins Svarta sauðsins. Arnar Halldórsson

„Þetta byggist svo ört að maður ratar varla orðið um þorpið,“ segir Katrín Stefánsdóttir sem árið 1965 fór sem ung stúlka úr Hrunamannahreppi til að vinna í Þorlákshöfn. „Skrapp á vertíð og hef eiginlega ekkert farið heim síðan.“

Katrín er meðal viðmælenda í þættinum Um land allt á Stöð 2 um Þorlákshöfn. Þar rekur hún núna veitingastaðinn Svarta sauðinn ásamt eiginmanni sínum, Antoni Viggóssyni. Hún finnur vel púls bæjarlífsins því þar fyllist allt af fólki í mat í hádeginu.

„Við erum með mikið af körlum. Þetta getur slagað í hundrað í hádeginu. Verktakar og vinnumenn sem eru að byggja upp hérna, hafnargarðinn og í fiskeldinu. Svo bara þessir smiðir hérna og allskonar píparar,“ segir Katrín.

Þorlákshöfn er eitt yngsta bæjarfélag landsins. Þar fór ekki að myndast þorp fyrr en eftir 1950. Árið 1960 var íbúafjöldinn kominn í 170 manns, talan skreið yfir þúsund árið 1980 og núna búa þar um tvöþúsund manns.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.

Bæjarstjórinn Elliði Vignisson spáir því að innan fimm ára fari íbúatalan yfir 3.500 manns en segist þó ekki vera upptekinn af því að telja hausafjöldann heldur vilji menn leggja meira upp úr því að íbúunum líði vel.

„Innan 10-15 ára, þetta sveitarfélag verður orðið sjö til tíu þúsund manna sveitarfélag,“ segir bæjarstjóri Ölfuss.

Þátturinn um þetta eitt mesta vaxtarpláss landsins er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19:10 í kvöld. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins:


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×