Lífið

4 dagar í Idol: Sex­tán ára Emm­sjé Gauti heillaði dómara en átti ekki heima í Idol

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Tónlistarmaðurinn Emmsjé Gauti reyndi fyrir sér í Idol Stjörnuleit þegar hann var 16 ára gamall.
Tónlistarmaðurinn Emmsjé Gauti reyndi fyrir sér í Idol Stjörnuleit þegar hann var 16 ára gamall.

Það eru ekki allir sem vita að Emmsjé Gauti, einn allra vinsælasti rappari Íslands, reyndi fyrir sér í Idol Stjörnuleit þegar hann var aðeins sextán ára gamall.

Það var prúðbúinn táningsdrengur með teina sem mætti til leiks á Hótel Loftleiðir fyrir sautján árum síðan. Tveimur árum áður hafði hann tekið þátt í Rímnaflæði, þar sem hann var valinn efnilegasti rapparinn.

Nú var hann orðinn 16 ára gamall og hafði því aldur til þess að taka þátt í ennþá stærri keppni, Idol Sjörnuleit. Gauti var þó ekki mættur til þess að syngja, heldur ætlaði hann sér að heilla dómnefndina með rappi eins og honum einum er lagið.

Klippa: Emmsjé Gauti - Idol

Hvöttu hann til þess að halda áfram að rappa

„Ferlega flott en þetta á ekki heima í þessari keppni. En ég segi í guðanna bænum ekki hætta, við þurfum á svona fólki að halda. Takk fyrir,“ sagði dómarinn Bubbi Morthens.

Dómnefndin var heilluð en virtist sammála um að rapp ætti ekki heima í þessari keppni. „Þú ert í vitlausri keppni. Þú átt að fara í leiklistarskólann eða halda áfram á þessari braut. Áfram með þig, en sorrí nei,“ sagði dómarinn Páll Óskar.

Átti seinna eftir að vinna með dómurunum

Emmsjé Gauti átti kannski ekki heima í Idol Stjörnuleit en í dag er hann einn vinsælasti tónlistarmaður landsins.

Þess má til gamans geta að dómararnir Sigga Beinteins og Páll Óskar hafa verið gestir Gauta á árlegum jólatónleikum hans. Þá fékk hann Bubba Morthens til þess að spila í brúðkaupinu sínu nú í sumar.

Gauti virðist því ekki erfa það neitt sérstaklega við dómnefndina að hafa ekki hleypt sér áfram í Idolinu á sínum tíma.

Þá tilkynnti Gauti um helgina að hann væri kominn í samstarf með Idol kynninum Jóhannesi Ásbjörnssyni, sem var annar helmingur tvíeykisins Simma og Jóa. Í tilefni þess rifjaði hann upp þeirra fyrstu kynni, fyrir sautján árum síðan, með skemmtilegri mynd á Instagram.

Klippa: Emmsjé Gauti - Malbik (feat. Króli)

Idol verður á Stöð 2 á föstudagskvöldum í vetur. Fleiri hundruð söngvarar spreyttu sig í áheyrnaprufunum en að lokum mun einn standa uppi sem sigurvegari. Fyrsti þáttur fer í loftið föstudagskvöldið 25. nóvember. 


Tengdar fréttir

5 dagar í Idol: Svíður enn að hafa til­kynnt rangan keppanda

Þau eru ansi stór fótsporin sem þau Aron Mola og Sigrún Ósk þurfa að feta í í nýrri þáttaröð Idol sem hefur göngu sína á föstudaginn. Kynnarnir Simmi og Jói settu mikinn svip á fyrri þáttaraðir, svo mikinn að þeir voru notaðir sem fordæmi fyrir Idol kynna í öðrum löndum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.