Lífið

7 dagar í Idol: Fyrsta sýnis­horn úr nýju þátta­röðinni

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Aðeins sjö dagar eru í að við fáum að sjá fyrstu keppendur spreyta sig í Idol.
Aðeins sjö dagar eru í að við fáum að sjá fyrstu keppendur spreyta sig í Idol.

Nú er aðeins ein vika í að fyrsti þáttur Idol verði sýndur á Stöð 2. Af því tilefni birtir Vísir plakat og fyrsta sýnishorn úr væntanlegri þáttaröð.

Nýja þáttaröðin mun innihalda hlátur, grátur og allt þar á milli. Frábærir söngvarar spreyta sig en ekki allir labba út með hinn eftirsótta gullmiða.

„Þú getur sungið, það er augljóst. En hvort þú eigir heima í þessari keppni ...“ heyrist Idol dómarinn Herra Hnetusmjör segja við einn keppandann í sýnishorninu.

„Ég fékk mér sopa til að gráta ekki,“ segir hann við annan.

Klippa: Fyrsta sýnishorn úr Idol

Stjörnum prýtt plakat

Fyrsta opinbera Idol plakatið var frumsýnt í gær. Það eru dómararnir fjórir sem prýða plakatið. Dómnefndina skipa þau Birgitta Haukdal, Herra Hnetusmjör, Bríet og Daníel Ágúst. Það má því með sanni segja að plakatið sé stjörnum prýtt.

Myndin á plakatinu var tekin í Safnahúsinu á Hverfisgötu. Innblástur myndatökunnar kom frá þeim fjölda brúðkaupsmynda sem hafa verið teknar á þessum stað. Enda býr mikil fegurð, dramatík og glæsileiki yfir þessu umhverfi, sem endurspeglar keppnina sjálfa.

Fyrsta opinbera Idol plakatið.Baldur Kristjánsson

Bríet var fjarverandi en málinu var reddað

Baldur Kristjánsson, einn færasti ljósmyndari landsins, tók ljósmyndina sem prýðir plakatið.

Þess má þó til gamans geta að Bríet gat ekki verið viðstödd myndatökuna, þar sem hún var að hitta ættingja sína í Egyptalandi. Það var því gripið til þess ráðs að taka myndir af Bríeti í stúdíóinu hans Baldurs og klippa hana inn á myndina eftir á.

Á plakatinu má sjá hvernig persónuleiki og einstakur stíll hvers dómara fær að njóta sín, rétt eins og hann mun gera í þáttunum sem hefja göngu sína þann 25. nóvember.

Myndin á plakatinu var tekin í Safnahúsinu á Hverfisgötu.
Myndirnar af Bríeti voru teknar í stúdíói Baldurs Kristjánssonar. Hún var svo klippt inn á plakatið eftir á.

Idol verður á Stöð 2 á föstudagskvöldum í vetur. Fleiri hundruð söngvarar spreyttu sig í áheyrnaprufunum en að lokum mun einn standa uppi sem sigurvegari. Fyrsti þáttur fer í loftið föstudagskvöldið 25. nóvember. 


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.