Innlent

Fimm í gæslu­varð­haldi og tveir til við­bótar hand­teknir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einn af karlmönnunum fimm leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í kvöld.
Einn af karlmönnunum fimm leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í kvöld. Vísir/Ívar

Fimm karlmenn á þrítugsaldri voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur í kvöld grunaðir um aðild að hnífstunguárás hóps manna á skemmtistaðnum Bankastræti Club á fimmtudagskvöld. Tíu hafa verði handteknir.

Það var á tólfta tímanum í gærkvöldi sem á þriðja tug grímuklæddra karlmanna ruddist inn á skemmtistaðinn, fóru rakleiðis í herbergi á neðri hæð staðarins og eftir lágu þrír ungir karlmenn særðir eftir hnífsstungur. Hópurinn lét sig svo hverfa út í nóttina.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á miðlægri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, tjáir fréttastofu að fimm hafi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Um er að ræða karlmenn á þrítugsaldri. Þrír voru úrskurðaðir í tveggja vikna varðhald og tveir í vikulangt varðhald. Krafan er á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Margeir segir lögreglu ekki munu hætta fyrr en allir hafa verið handteknir. Hann sagði fyrr í dag að lögregla teldi sig vita hverjir hefðu komið að árásinni. Hvatti hann hina sömu til að gefa sig fram.

Fjallað var ítarlega um árásina í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þar sagði Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur árásina fordæmalausa hér á landi.

Heimildir fréttastofu herma að margir þeirra hafi starfað sem dyraverðir í miðbænum og tengist sama öryggisfyrirtæki. Þetta hefur lögregla þó ekki viljað staðfesta.

Margeir segir það til skoðunar hvað hafi legið að baki árásinni. Hún sé rannsökuð sem tilraun til manndráps.

„Það er alveg klárt mál að þessi atlaga er skipulögð. Hvort að þetta sé hópur eða hópar sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi er bara eitthvað sem við komum til með að skoða líka en ég get ekkert sagt til um það núna á þessu stigi. Því við leggjum allt í sölurnar við að hafa upp á þessum mönnum og það er eiginlega staðan núna.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×