Innlent

Segir mörg fjölbýlishús ekki reiðubúin fyrir nýtt sorpflokkunarkerfi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Daníel segir vangaveltur uppi um sorprennur fjölbýlishúsa, hvort þær verða nýttar áfram.
Daníel segir vangaveltur uppi um sorprennur fjölbýlishúsa, hvort þær verða nýttar áfram.

„Það er vitað mál að aðstæður í sumum húsum bjóða ekkert upp á þetta, fjölmörg hús þurfa að fara í að bæta sína aðstöðu og hefðu í raun þurft að vera búin að því,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, um nýtt sorphirðukerfi sem tekur gildi um áramót.

Morgunblaðið greinir frá.

Frá og með áramótum þurfa heimili á höfuðborgarsvæðinu að flokka sorp í fjóra flokka; blandaðan úrgang, pappa, plast og lífrænan úrgang. Í sumum tilvikum verður flokkunin ekki vandamál, þar sem ný tvískipt ílát verða á boðstólum. 

Þá verður heimilum úthlutað grænni körfu og bréfpokum sem eru sérstaklega hannaðir fyrir lífrænan úrgang og þegar er búið að panta tvær milljónir slíkra poka. Innleiðing nýja kerfisins hefst í maí næstkomandi og á að ljúka í október 2023.

Daníel segist telja að formenn húsfélaga séu almennt jákvæðir gagnvart breytingunum en víða sé þetta þó stórt verkefni. Sums staðar muni þurfa að byggja sorpgerði utanhúss í stað þess að vera með sorpið í þröngum geymslum innandyra.

 „Frávik í umgengni og frávik í flokkun veldur ákveðnum vandkvæðum í daglegum rekstri húsfélaga þannig að þetta mál er alltaf ljóslifandi fyrir forsvarsaðilum húsfélaga,“ segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×