Lífið

„Takk fyrir að standa með mér í gegnum þetta allt“

Elísabet Hanna skrifar
Leikkonan Christina Applegate tók á móti stjörnunni sinni í fyrradag.
Leikkonan Christina Applegate tók á móti stjörnunni sinni í fyrradag. Getty/Phillip Faraone

Leikkonan Christina Applegate hefur hlotið stjörnu á hinni frægu götu Hollywood Walk og Fame. Á síðasta ári greindist hún með MS sjúkdóminn og minntist á hann í tilfinningaþrunginni ræðu við athöfnina.

Þetta er í fyrsta skipti sem leikkonan kemur fram opinberlega eftir að hún greindi frá sjúkdómnum. „Þetta er í fyrsta skipti sem einhver sér mig eins og ég er í dag. Ég er búin að bæta á mig rúmum átján kílóum, ég get ekki gengið án stafs. 

Ég vil að fólk viti að ég er mjög meðvituð um þetta allt,“ sagði hún í viðtali við The New York Times fyrir athöfnina.

Þakkaði dóttur sinni

Á stóra deginum hélt hún fallega ræðu þar sem hún sagði æskudraum sinn vera að rætast við það að fá stjörnuna á göngugötuna frægu. Hún þakkaði öllu fólkinu í kringum sig sem hún segir vera fjölskylduna sína. Hún er líklega þekktust fyrir hlutverk sín í: Married … With Children, Friends, Anchorman, The Sweetest Thing, Dead to me og Bad moms.

„Takk fyrir að standa með mér í gegnum þetta allt,“ sagði hún einnig í ræðunni til dóttur sinnar. „Vel á minnst þá er ég með sjúkdóm,“ bætti hún síðan við glettin. „Tókuð þið eftir því? ég er ekki einu sinni í skóm. Hvað um það, þið áttuð að hlæja,“ sagði hún einnig á meðan gestir hlógu.

Ræðuna má sjá í heild sinni hér að neðan:

Mögulega síðasta hlutverkið

Þó að leikkonan hafi talað um sjúkdóminn á léttu nótunum í ræðunni í fyrradag hefur hún áður opnað sig um það hversu erfitt það hafi verið að reyna að sætta sig við greininguna. Hún segist hafa þurft tíma til þess að syrgja fréttirnar, sem hún fékk í miðjum tökum á síðustu seríu þáttanna Dead to me á Netflix. 

Christina segist hafa fengið gott svigrúm til þess að passa upp á sjálfa sig og ákveða næstu skref. Í viðtali við Variety sagði hún að hlutverkið í þáttunum Dead to me sem Jen Harding gæti mögulega verið sitt síðasta vegna heilsunnar. 

Samkvæmt vef MS-fé­lagsins á Íslandi er MS langvinnur bólgusjúkdómur í miðtaugakerfinu þar sem ónæmiskerfið ræðst á mýelín, efnið sem myndar slíður utan um taugasíma (taugaþræði) og ræður hraða og virkni taugaboða.


Tengdar fréttir

Bæði brjóstin í burtu

Leikkonan Angelina Jolie vakti mikla athygli þegar hún greindi frá ákvörðun sinni um að láta fjarlægja bæði brjóst sín til að draga úr líkunum á því að fá krabbamein. Hún er ekki eina stjarnan sem hefur gengist undir slíka aðgerð.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.