Innlent

Lyfja­af­greiðsla í Laugar­ási í lausu lofti eftir lokun Lyfju

Bjarki Sigurðsson skrifar
Afgreiðsla Lyfju í Laugarási.
Afgreiðsla Lyfju í Laugarási. Já.is

Útibúi Lyfju í Laugarási var lokað um síðustu mánaðamót. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur óskað eftir því að Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) taki við lyfjaafgreiðslu en hefur ekki haft erindi sem erfiði. 

Íbúar Laugaráss í Bláskógabyggð hafa hingað til getað fengið afgreiðslu lyfja í lyfjaafgreiðslu Lyfju. Lyfjaafgreiðslan var starfrækt á móti húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í sveitarfélaginu. 

Fjallað var um fyrirhugaða lokun lyfjaafgreiðslunnar hér á Vísi í byrjun október. Þá lýstu bæði sveitarstjórn Bláskógabyggðar og sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps yfir áhyggjum sínum vegna áforma Lyfju. Fram kom í fundargerðum sveitarfélaganna að Lyfja leitaðist eftir samningum um að HSU tæki við lyfjaafgreiðslunni. 

Þann 1. nóvember síðastliðinn var útibúi Lyfju hins vegar lokað, án þess að búið væri að ákveða hver tæki við. Í fundargerð sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá því í síðustu viku segir að lokunin verði að teljast afar slæm fyrir íbúa svæðisins. Þá sé hún ekki til þess fallin að styrkja starfsemi HSU í Laugarási. 

„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar harmar þessa niðurstöðu, sem veldur miklum vonbrigðum, og hvetur til þess að HSU leiti allra leiða til að fá annað apótek til samstarfs,“ segir í fundargerðinni. 

Í samtali við fréttastofu segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU, að enn hafi ekki náðst samkomulag um hvernig lyfjaafgreiðsla á heilsugæslunni ætti að útfærast. Þá á hún ekki von á að svo verði. 

„Þetta er ekki okkar rekstur. Auðvitað hörmum það að hafa ekki þessa þjónustu við heilsugæsluna. Það er auðvitað sorglegt. Þetta eru bara aðilar sem reka þetta og taka þessar ákvarðanir. Við höfum lítið um það að segja,“ segir Díana. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×