Innlent

Tæp­lega tíu þúsund færri en reiknað var með

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mannfjöldinn á Íslandi var 359.122 þann 1. janúar 2021, samkvæmt manntali.
Mannfjöldinn á Íslandi var 359.122 þann 1. janúar 2021, samkvæmt manntali. Vísir/Vilhelm

Rétt tæplega tíu þúsund fleiri einstaklingar eru skráðir í þjóðskrá en teljast til mannfjölda hér á landi, miðað við manntal ársins í fyrra.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar þar sem fjallað er um niðurstöður manntalsins 2021, sem tekið er á tíu ára fresti.

Þar kemur fram að mannfjöldi á Íslandi var 359.122 á manntalsdegi, þann 1. janúar 2021. Íbúum fjölgaði um 13,8 prósent frá því að manntal var tekið síðast árið 2011.

Það vekur athygli að mannfjöldi í manntalinu 2021 er lægri en mannfjöldinn samkvæmt Þjóðskrá og munar þar um tæplega tíu þúsund manns.

„Fleiri einstaklingar eru skráðir í þjóðskrá (368.791) en teljast til mannfjölda samkvæmt manntalinu 2021 (359.112). Alls töldust 11.343 ekki til mannfjölda í manntali og 1.674 var bætt við. Mestu munar um þá sem flytja af landi brott án þess að tilkynna búferlaflutninga,“ segir á vef Hagstofunnar.

Er þar vísað í að til að meta þetta misræmi hafi verið stuðst við svokallaða lífsmerkjarannsókn Hagstofunnar. Um er að ræða líkan sem nýtir margvíslegar upplýsingar úr úrtaksrannsóknum Hagstofunnar og opinberum skrám til þess að spá fyrir um þann fjölda sem býr erlendis þrátt fyrir að vera með skráð lögheimili á Íslandi.

„Niðurstaðan var sú að 7.701 einstaklingur búi erlendis þrátt fyrir að vera með íslenskt lögheimili í þjóðskrá,“ segir á vef Hagstofunnar en sjá má sundurliðun á útreikningum Hagstofunnar hér að neðan.

Í manntalinu koma einnig fram ýmsar aðrar upplýsingar, svo sem að fjölgun var í öllum landshlutum frá 2011 til 2021, mest á Suðurnesjum, 28,2 prósent, og minnst á Norðurlandi vestra, 0,6 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×