Erlent

Enn bætist í skulda­súpu Jones vegna sam­særis­kenninga

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alex Jones virðist ekki hafa mikinn áhuga á því að greiða það sem hann skuldar.
Alex Jones virðist ekki hafa mikinn áhuga á því að greiða það sem hann skuldar. Joe Buglewicz/Getty Images

Það syrtir enn í álinn fyrir bandaríska samsæriskenningasmiðinn Alex Jones. Dómari í Connecticut-ríki hefur dæmt hann til að 473 milljónir dollara til viðbótar við þann tæpa eina milljarð sem hann hafði áður verið dæmdur til að greiða.

Aðstandendur fórnarlamba skotárásarinnar í Sandy Hook árið 2012 hafa undanfarin ár sótt hart að Jones vegna samsæriskenninga hans um að skotárásin hafi verið sviðsett. Þá hefur hann haldið því fram að foreldrar barnanna sem voru myrt væru leikarar á vegum stjórnvalda.

Þetta gerði hann á opinberum vettvangi í gegnum sjónvarpsstöðina Infowars. Hafa aðstandendur sakað hann um að hafa nýtt þessar samsæriskenningar til að byggja upp áhorf á sjónvarpsstöðina og í leiðinni hagnast um milljónir.

Í október var Jones dæmdur til að greiða aðstandendum 965 milljónir dollara. Fyrr á árinu hafði hann verið dæmdur til að greiða fimmtíu milljónir dollara vegna sambærilegs máls.

Dómari í Connecticut hefur nú dæmt Jones til að greiða 473 milljónir dollara til viðbótar við þessar greiðslur. Það þýðir að heildargreiðslurnar sem Jones þarf að inna hendi nema 1,4 milljörðum dollara, tæplega tvö hundruð milljörðum íslenskra króna.

Dómarinn bannaði einnig Jones að flytja eignir frá Bandaríkjunum. Sjálfur segist Jones ekki vera borgunarmaður fyrir þeim miskabótum sem hann hefur verið dæmdur til að greiða. Hann viðurkennir þó nú að skotárásin átti sér stað.


Tengdar fréttir

Ekki á þeim buxunum að greiða milljarðinn sem hann skuldar

Bandaríski samsæriskenningasmiðurinn Alex Jones virtist gefa það til kynna að enginn möguleiki væri á því að hann myndi greiðar gríðarlega háar skaðabætur sem hann var dæmdur til að greiða fjölskyldum fórnarlamba skotárásarinnar í Sandy Hook.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×