Fótbolti

Sex þúsund argentínskir fót­­bolt­a­á­huga­­menn á bann­lista á HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Argentínskur stuðningsmaður.
Argentínskur stuðningsmaður. Getty/Marcelo Endelli

Argentínumenn ætla að passa upp á það að argentínskar fótboltabullur verði hvergi sjáanlegar þegar heimsmeistaramótið í fótbolta fer fram í Katar.

Argentínska landsliðið er til alls líklegt á þessu síðasta heimsmeistaramóti snillingsins Lionel Messi og gríðarlegur áhugi er á landsliðinu í heimalandinu. Margir trúa því að eins og guð gaf Maradona mikilvægt mark á HM í Mexíkó þá sé komið að því að Messi uppskeri með því að landa langþráðum heimsmeistaratitli.

Stjórnvöld í Argentínu tilkynntu í gær að sex þúsund argentínskir fótboltáhugamenn væru komnir á bannlista á HM í Katar. Þeir mega ekki stíga fæti inn á leikvang í Katar á meðan heimsmeistaramótinu stendur.

Bannið nær ekki aðeins yfir bullurnar sem hafa verið með ofbeldi og annars konar óeirðir á fótboltaleikjum heldur einnig yfir þá skulda pening fyrir mat eða jafnvel skulda meðlög.

„Ofbeldismennirnir eru bæði hér og í Katar. Við viljum koma með frið aftur inn í fótboltann og sjá til þess að ofbeldisseggirnir verði fyrir utan leikvanganna,“ sagði argentínski dómsmálaráðherrann Marcelo D'Alessandro í útvarpsviðtali.

Fólk sem hefur stundað ólöglegar sölur á götum eða skulda aðrar greiðslur til ríkisins er líka sett á bannlistann.

Öryggismálaráðuneytið gekk frá samningi í júní við stjórnvöld í Katar um að útiloka ofbeldisseggina frá heimsmeistaramótinu.

Helmingurinn af þessum sex þúsund eru svokallaðar "barrabravas" fótboltabullur en þeir mega heldur ekki mæta á leiki í Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×