Fótbolti

Bað Ronaldo um leyfi fyrir að nota fagnið hans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alejandro Garnacho fagnaði að hætti Cristianos Ronaldo eftir að hafa skorað sigurmark Manchester United gegn Real Sociedad.
Alejandro Garnacho fagnaði að hætti Cristianos Ronaldo eftir að hafa skorað sigurmark Manchester United gegn Real Sociedad. getty/David S. Bustamante

Cristiano Ronaldo er átrúnaðargoð Alejandros Garnacho og virðingin sem hann ber fyrir honum sást bersýnilega þegar táningurinn fagnaði sínu fyrsta marki fyrir Manchester United.

Garnacho skoraði eina mark leiksins þegar United sigraði Real Sociedad á Spáni í lokaumferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í gær. Markið kom á 17. mínútu en Ronaldo lagði það upp fyrir hinn átján ára Garnacho.

Argentínumaðurinn fagnaði eins og Ronaldo gerði þegar hann skoraði gegn Sheriff Tiraspol. Garnacho passaði sig þó á því að spyrja Ronaldo fyrst um leyfi. Ekki nóg með það heldur þakkaði hann Ronaldo fyrir á samfélagsmiðlum eftir leikinn. 

Garnacho fæddist 1. júlí 2004. Daginn áður hafði Ronaldo skorað fyrra mark Portúgals í 2-1 sigri á Hollandi í undanúrslitum EM. Þann 4. júlí spilaði Ronaldo svo úrslitaleik EM þar sem Portúgalir töpuðu óvænt fyrir Grikkjum, 1-0.

Garnacho hefur byrjað síðustu tvo leiki United í Evrópudeildinni og verið valinn maður leiksins í bæði skiptin. Þrátt fyrir að vinna fimm af sex leikjum sínum endaði United í 2. sæti E-riðils. Real Sociedad var fyrir ofan United á hagstæðari markatölu.

United þarf því að fara í umspil um sæti í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Dregið verður í það á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×