Fótbolti

Of ung til að mega fagna titlinum með liðsfélögum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Portland Thorns fagna sigri í úrslitaleiknum um bandaríska titilinn en þarna má sjá Oliviu Moultrie „út í horni“.
Leikmenn Portland Thorns fagna sigri í úrslitaleiknum um bandaríska titilinn en þarna má sjá Oliviu Moultrie „út í horni“. AP/Nick Wass

Stundum getur það skapað skrýtin vandamál þegar þú ert orðin atvinnumaður í fótbolta áður en þú færð bílprófið og spilar líka með besta liði landsins.

Portland Thorns varð á dögunum bandarískur meistari í kvennafótboltanum og stelpurnar fögnuðu vel eftir 2-0 sigur á Kansas City Current í úrslitaleiknum.

Sophia Smith skoraði fyrra markið en það síðara var sjálfsmark.

Það var full ástæða til að fagna vel inn í klefa eftir leik og eins og venja er þá opnuðu meistararnir nokkrar kampavínsflöskur í tilefni sigursins.

Það var bara eitt vandamál þegar kampavínið fór að flæða að með Portland liðinu spilar hin sautján ára gamla Olivia Moultrie. Hún er sú yngsta sem hefur skrifað undir samning við lið í NWSL deildinni.

Olivia kom inn á sem varamaður í úrslitaleiknum en hún skoraði 3 mörk og gaf 4 stoðsendingar í fimmtán leikjum á tímabilinu. Olivia hélt upp á sautján ára afmælið í septembermánuði og það eru enn fjögur ár í því að hún megi drekka.

Fólk fór því að gera góðlátlegt grín að því á samfélagsmiðlum þegar unga stelpan var skilin út undan í klefanum þegar stelpurnar fóru að skála fyrir sigrinum eins og sést hér fyrir ofan og neðan. Olivia var hreinlega of ung til að mega fagna titlinum með liðsfélögum sínum

Olivia er vissulega of ung fyrir sigurvökvann en hún er strax byrjuð að safna titlum sem gætu því orðið margir ef hún verður í boltanum næst tvo áratugina. Það eru allir á því að þetta sé mikið hæfileikabúnt sem er efni í stórstjörnu í kvennafótboltanum haldi hún rétt á spilunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×