Fótbolti

Enginn Son í Katar?

Smári Jökull Jónsson skrifar
Heung-Min Son gæti misst af Heimsmeistaramótinu í Qatar vegna meiðsla.
Heung-Min Son gæti misst af Heimsmeistaramótinu í Qatar vegna meiðsla. Vísir/AP

Svo gæti farið að Heung-Min Son missi af Heimsmeistaramótinu í Katar sem hefst síðar í þessum mánuði. Hann þarf að gangast undir aðgerð vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik með Tottenham í gær.

Son meiddist í leiknum gegn Marseille í gær þegar hann lenti í árekstri við Chancel Mbemba leikmann Marseille. Son fékk högg á andlitið og í ljós hefur komið að hann þarf í aðgerð til að laga sprungu í vinstri augnbotni.

Þetta setur þátttöku hans á heimsmeistaramótinu í Katar í hættu en Son og félagar hans í Suður-Kóreu eiga að leika sinn fyrsta leik á mótinu þann 24.nóvember gegn Úrugvæ. 

Óljóst er hversu lengi Son verður frá en ljóst er að hann verður í kapphlaupi við klukkuna ef hann ætlar að verða tilbúinn fyrir fyrsta leik. Son er lykilmaður í liði Suður-Kóreu og langstærsta stjarnan í þeirra liði.

Kevin De Bruyne, leikmaður Manchester City og landsliðsmaður Belgíu, varð fyrir svipuðum meiðslum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2021, fékk þá sprungu í nef og augnbotn. Hann gekkst undir aðgerð en var klár í slaginn þegar Belgía lék sinn fyrsta leik á Evrópumótinu innan við þremur vikum síðar. Vonin er því ekki úti fyrir Heung-Min Son.

Þá meiddist Ben Chilwell í leik með Chelsea gegn Dinamo Zagreb í Meistaradeildinni í kvöld. Hann virtist togna aftan í læri og var Graham Potter, þjálfari Chelsea, ekki bjartsýnn í viðtölum eftir leik.

„Þetta lítur ekki vel út. Hann fer í myndatöku á morgun en staðan er ekki jákvæð,“ sagði Potter en það yrði áfall fyrir Gareth Southgate og Englendinga ef Chilwell færi ekki til Katar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.