Innlent

Saknar leik­skólans og for­eldrarnir vita ekki hvernig þeir tækla næstu viku

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Rúnar Steinn saknar leikskólans.
Rúnar Steinn saknar leikskólans. bjarni einarsson

Mæður leikskólabarna sem ekki hafa komist á leikskólann síðustu daga vegna manneklu og mygluvanda segja Reykjavíkurborg treysta á að foreldrar hafi gott bakland. Foreldrar verði fyrir tekjutapi og segjast ekki hafa hugmynd um hvernig þær ætli að tækla næstu viku. 

Leikskólanum Árborg var á dögunum lokað þar sem mygla greindist í húsnæðinu. Foreldrum barna á leikskólanum var tilkynnt þetta í október en skólinn verður ekki opnaður fyrr en í fyrsta lagi eftir ár.

„Það var sagt fyrst í tölvupósti sem við fengum, eitt ár en svo á fundi um daginn var talað um kannski eitt og hálft ár eða tvö ár, þau vissu það ekki alveg. Það er alltaf eitthvað nýtt og nýtt að bætast við og við vitum ekki neitt,“ sagði Anna María Toma, móðir.

Fáliðun

Börnin voru til að byrja með flutt í leikskóla í sundahverfinu sem verður að teljast löng vegalengd frá Árbænum en nú er stefnt að því að þau verði í Selásskóla. Börnin hafa hins vegar ekki farið á leikskóla síðustu daga vegna fáliðunar og  veikinda starfsmanna. 

Olga og Anna María segja að foreldrar verði fyrir tekjutapi vegna mönnunarvandans.bjarni einarsson

Hvað er langt síðan að börnin fóru á leikskóla?

„Þau eru búin að vera heima síðan á föstudaginn í síðustu viku. Við eigum að fá upplýsingar aftur í lok þessarar viku,“ sagði Olga María Þórhallsdóttir Long, móðir.

Tekjutap

Hún starfar hjá Vodafone og hefur verið að taka son sinn með í vinnuna.

„Að taka barnið með sér í vinnuna er allt í lagi einu sinni og einu sinni en að taka það með tvisvar til þrisvar í viku og reyna að koma einhverju í verk, það er ekki hægt. Það eina sem borgin ætlar að gera er að lækka leikskólagjöldin þá daga sem leikskólinn er ekki opinn en tekjutapið er miklu meira en mánaðargjald á leikskóla.“

Þær segja litlar sem engar upplýsingar að fá frá borginni og hafa ekki hugmynd um það hvenær borgin muni tryggja mönnun á leikskólanum.

„Við vitum ekkert hvernig næsta vika verður og þetta er rosalega mikil óvissa og erfitt fyrir marga. Það eru ekkert allir sem geta reddað öfum og ömmum til þess að passa,“ sagði Anna María.

Þannig þið vitið ekkert hvernig næsta vika verður?

„Nei, örugglega bara svona,“ sagði Olga.

Segja borgina treysta á baklandið

Þær segja Reykjavíkurborg treysta á að foreldrar hafi gott bakland og að hlutirnir reddist.

„Við erum ekki með neinn sem getur passað fyrir okkur á daginn þannig við verðum bara að taka þau með okkkur í vinnuna.“

Saknar þú þess að fara í leikskólann?

„Já,“ sagði Rúnar Steinn, sonur Olgu Maríu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×