Innlent

Mjóddin má muna sinn fífil fegurri

Bjarki Sigurðsson skrifar
Rauðvínsflaska, sprittbrúsi og fleira rusl við blautan bekk á biðstöðinni í Mjódd.
Rauðvínsflaska, sprittbrúsi og fleira rusl við blautan bekk á biðstöðinni í Mjódd. Vísir/Vilhelm

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar hefur lagt til að ráðist verði í umbætur á strætóskiptistöðinni í Mjóddinni. Stöðin er sú fjölfarnasta á landinu. 

Á hverju ári fara fjórar milljónir farþega um umferðarmiðstöðina í Mjóddinni. Þar stöðva ellefu strætóar, þar af þrír landsbyggðarstrætóar sem ferðast til Borgarness, Landeyjarhafnar og Selfoss.

Aðstaðan í Mjódd er alls ekki sú fegursta, krotað er á flesta veggi, takmarkað magn af sætisplássi er til staðar og er þjónustutíminn ekki langur. Einungis er hægt að sækja þjónustu þar milli klukkan 7 og 18 á virkum dögum og klukkan 10 til 14 um helgar.

Þessi bekkur lítur ekki út fyrir að vera sá þægilegasti.Vísir/Vilhelm

Hildur Björnsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar, vill að ráðist verði í að minnsta kosti þrjár aðgerðir til að bæta aðstöðu strætisvagnafarþega við Mjóddina. 

Fyrsta skref væri að byrja með kvöldopnanir. Hildur leggur til að stöðin verði opin farþegum á kvöldin á meðan vagnarnir ganga. 

Klósettaðstaðan er ekki hugguleg.Vísir/Vilhelm

Þá þurfi að auka gæslu í biðsalnum og koma salernisþrifum í lag. Þriðja tillaga Hildar er að sætum í biðsal verði fjölgað og þau sæti sem eru þar nú þegar verði löguð. Gera þurfi biðsalinn hlýlegri, til dæmis með uppsetningu listaverka. 

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs sem fram fór í vikunni var málinu frestað. 

Hver þarf pláss þegar hann er að pissa...?Vísir/Vilhelm

Mjóddin er einn af fáum stöðum þar sem hægt er að kaupa strætómiða.Vísir/Vilhelm

Búið er að brjóta rúðu við inngang inn í Mjóddina.Vísir/Vilhelm


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×