Fótbolti

Settur í agabann fyrir að reykja á bekknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Radja Nainggolan er gjarn á að koma sér í klandur.
Radja Nainggolan er gjarn á að koma sér í klandur. getty/Joris Verwijst

Radja Nainggolan hefur verið settur í agabann af félagi sínu, Royal Antwerp, fyrir að reykja sígarettu á varamannabekknum.

Fyrir leik Antwerp og Standard Liege í belgísku úrvalsdeildinni um helgina sást Nainggolan reykja rafsígarettu á varamannabekknum. Antwerp tapaði leiknum, 3-0.

Nainggolan kom inn á sem varamaður í hálfleik en það gæti verið hans síðasti leikur fyrir Antwerp. Hann hefur nefnilega ekki aðeins komið sér í klandur með því að reykja á bekknum heldur var hann tekinn próflaus undir stýri í síðustu viku.

Hinn 34 ára Nainggolan hefur verið settur í ótímabundið agabann af Antwerp og framtíð hans hjá félaginu er í óvissu. Í færslu á Instagram baðst hann afsökunar á hegðun sinni en fannst refsingin sem hann fékk full hörð.

Nainggolan gekk í raðir Antwerp í fyrra eftir að hafa leikið á Ítalíu allan sinn feril. Lengst af var hann hjá Cagliari og Roma. Nainggolan lék þrjátíu leiki og skoraði sex mörk fyrir belgíska landsliðið á árunum 2009-18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×