Innlent

„Ég segi það bara hreint út, þetta er stórt vanda­­mál“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar

Á annan tug leik- og grunn­skóla á landinu glíma nú við myglu­vanda­mál, sem sviðs­stjóri Reykja­víkur­borgar segir eitt það stærsta sem borgin glími við. Hún rekur vandann aftur til niður­skurðar í við­halds­málum eftir hrun.

Að minnsta kosti sjö grunn­skólar og tólf leik­skólar á landinu glíma nú við myglu­vand­ræði eða eftir­köst þeirra.

Reykja­víkur­borg hefur þurft að kljást við hvert til­fellið á fætur öðru upp á síð­kastið. Eitt og eitt til­felli hefur reglu­lega komið upp en nú virðist al­ger sprenging í greiningu á myglu í skóla­hús­næði.

„Ég segi það bara hreint út. Þetta er stórt vanda­mál, mjög. Og kannski eitt­hvað sem var ekki alveg hægt að sjá fyrir fyrir nokkrum árum síðan. En já þetta er eitt af okkar stóru, stóru verk­efnum í dag,“ segir Ólöf Örvars­dóttir, sviðs­stjóri um­hverfis- og skipu­lags­sviðs Reykja­víkur­borgar.

Hún segir myglu í skóla­hús­næði jafn­vel stærsta vanda­mál borgarinnar þessa dagana.

Ólöf Örvarsdóttir er sviðsstjóri, umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.vísir/dúi

„Já, þetta er alla­vega svona með því stærra sem við erum að glíma við núna. Af því að það er svo mikil praktík í þessu; það þarf að sel­flytja börn, þetta hefur á­hrif á fjöl­skyldur, kennara, starfs­fólk. Þetta hefur svo mikil á­hrif á dag­legt líf fólks. Þetta er kannski annað en að gera risa­stóra skipu­lags­á­ætlun sem á að fram­kvæma á ein­hverjum X árum og við höfum á­kveðinn tíma. Þetta er svo þröngur tíma­rammi, þannig að það er kannski það kapp­hlaup sem er erfitt og auð­velt að mis­stíga sig í því þó að við séum að reyna að gera okkar besta.“

En hvers vegna hefur orðið svo gríðar­leg aukning í þessum greiningum á síðustu árum?

Við leituðum svara hjá sér­fræðingi EFLU verk­fræði­stofu.

„Fólk er kannski meira að til­kynna og átta sig á því ef það finnur ein­hver ein­kenni í húsum þá er það að til­kynna og það er jafn­vel meira tekið til greina núna heldur en áður,“ segir Sylgja Dögg Sigur­jóns­dóttir hjá EFLU.

Það er kannski dá­lítið nýtt að við séum að pæla í þessu? 

„Já, ó­líkt ná­granna­löndum okkar þá höfum við ekki verið að hugsa um þetta síðustu 20 ár. Bara síðustu svona fimm ár sem við erum al­var­lega farin að hugsa um það að loft­gæði og inni­vist skipta okkur máli.“

En er þetta sér­ís­lenskt vanda­mál eða hvernig er staðan úti?

„Við getum alveg sagt að við erum alveg tíu, tuttugu árum á eftir ná­granna­löndum okkar að bregðast við. Þannig að ná­granna­lönd okkar hafa farið ansi skarpt í að fyrir­byggja og finna á­hættu­svæðin. Þannig að á­standið núna er mögu­lega eitt­hvað verra en hjá ná­granna­löndum okkar en það er þá líka vegna þess að þau hafa þá tekið dá­lítið fast á því,“ segir Sylgja.

Sylgja Dögg hefur lengi séð um myglumál fyrir EFLU verkfræðistofu.vísir/arnar

Of mikill sparnaður eftir hrun

Ólöf segir að mörgu leyti hægt að rekja vandann nú til niður­skurðar í kjöl­far efna­hags­hrunsins 2008.

„Ég held að það séu ekkert verr byggð húsin okkar, nema síður sé, en þau eru sannar­lega mörg hver komin á tíma. Og það er bara eins og með mal­bikið. Við erum búin að ná upp þeim sparnaði, sem var í raun og veru að spara sér til tjóns, þegar ekki var gert við götur eftir hrun og í svo­lítið langan tíma. Og það var komin upp­söfnuð við­halds­þörf, já, í fast­eignum okkar. Víðast hvar en alls ekki alls staðar.“

Var þá of lítið fjár­magn inni í við­halds­málum á sínum tíma?

„Fyrst eftir hrun, já,“ segir Ólöf.

Borgin ætlar að setja 30 til 35 milljarða í við­halds­mál á næstu fimm til sjö árum.

Sylgja hjá EFLU segir lykil­at­riði að auka eftir­lit með byggingar­aðilum. Búið sé að laga reglu­gerðir sem eigi að tryggja vel byggð hús.

„Við getum gert miklu betur. Það er af nógu að taka. Við þurfum að fylgja reglu­gerðinni, við þurfum að hafa rann­sóknar­stofnun eða ein­hvern aðila, ó­háðan aðila sem að prófar efni og að­ferðir áður en við förum með þau og setjum þau út á markað. Í rauninni er bygginga­markaðurinn í dag til­rauna­stofa þar sem við erum að prófa hvort að eitt­hvað gangi upp. Og síðast en ekki síst að við­halda húsunum okkar betur. Og fyrir­byggjandi að­gerðir eru eitt­hvað sem við ættum öll að temja okkur. Að grípa inn í áður en að skaðinn verður.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×