Fótbolti

Segir að óvænta hetjan á Old Trafford eigi eftir að fá Jerry Maguire símtal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Francis Uzoho og svo Tom Cruise í hlutverki umboðsmannsins Jerry Maguire.
Francis Uzoho og svo Tom Cruise í hlutverki umboðsmannsins Jerry Maguire. Samsett/Getty

Francis Uzoho sló í gegn með frammistöðu sinni í marki Omonia Nicosia á Old Trafford í gærkvöldi en þessi 23 ára gamli markvörður hefur stolið fyrirsögnunum eftir leikinn þrátt fyrir tap kýpverska liðsins.

Manchester United var í stórsókn allan leikinn en Francis Uzoho varði hvert skotið á fætur og öðru og öll þar til að Scott McTominay skoraði sigurmark United í uppbótatíma.

Uzoho hafði aðeins spilað í 134 mínútur á þessu tímabili en var í miklu stuði í gær og var búinn að verja tólf skot þegar McTominay kom boltanum fram hjá honum.

Sagan varð enn betri þegar kom í ljóst að Uzoho er mikill stuðningsmaður Manchester United.

Francis Uzoho á að baki 26 landseliki fyrir Nígeríu og hélt hreinu á móti Íslandi á HM í Rússlandi sumarið 2018.

Owen Hargreaves, knattspyrnusérfræðingur á BT Sport, telur að þessi frammistaða munu breyta ferli nígeríska markvarðarins. BBC segir frá.

„Hann átti besta leik lífs síns og hann var stórkostlegur,“ sagði Owen Hargreaves.

„Hann mun tryggja sér samning með þessu. Að hugsa sér að hann hafi verið varamarkvörðurinn þeirra. Hann var eins og veggur,“ sagði Owen.

„Umboðsmaðurinn hans verður mikið í símanum á næstunni og Francis mun fá Jerry Maguire símtal frá honum,“ sagði Owen.

Hann vísaði þar til kvikmyndarinnar Jerry Maguire með Tom Cruise og Cuba Gooding Jr. þar sem Cruise leikur umboðsmann og Gooding Jr. leikmanninn.

„Við höfum allir átt móment, leiki sem breyta lífi okkar. Nú munu allir þekkja nafnið hans. Þessi leikur mun gerbreyta ferli hans og líklegast breyta lífi hans. Hann sagði okkur svo margt með þessu stóra brosi sínu í viðtalinu,“ sagði Owen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×