Innlent

For­maðurinn segir af sér og er hættur í Presta­fé­laginu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Arnaldur Bárðarson er fráfarandi formaður Prestafélags Íslands.
Arnaldur Bárðarson er fráfarandi formaður Prestafélags Íslands. Vísir

Arnaldur Bárðarson hefur tilkynnt afsögn sína sem formaður Prestafélags Íslands. Þá hefur hann sagt sig úr félaginu og gengið til liðs við Fræðagarð. Hann hvetur alla presta til að gera slíkt hið sama.

Arnaldur staðfestir í samtali við fréttastofu að hann hafi tilkynnt um afsögn sína í gærmorgun. Fréttablaðið greindi fyrst frá þessu en upphaflega ætlaði Arnaldur sér að segja af sér þann 10. október á aukaaðalfundi. 

Fundinum var þó frestað vegna mistaka í fundarboði. Arnaldur vildi þó standa við það sem hann hafði sagt og sagði af sér í gærkvöldi. 

„Fyrst og síðast vegna þess að ég tel það þurfi að vera breytingar á Prestafélagi Íslands. Við getum ekki verið samblanda af fagfélagi og stéttarfélagi með þeim hætti sem við erum í dag. Sjálfur hef ég sagt mig úr Prestafélaginu og hef gengið til liðs við Fræðagarð. Ég tel að allir prestar ættu að sameinast þar innan raða ásamt öðru háskólamenntuðu starfsfólki kirkjunnar í einu stóru stéttarfélagi,“ segir Arnaldur í samtali við fréttastofu. 

Afsögnin kemur í kjölfar þess að mikil óeining hefur ríkt innan Prestafélagsins og prestasamfélagsins á Íslandi. Félag prestvígðra kvenna lýsti yfir vantrausti á hendur Arnaldi vegna ummæla sem hann lét falla í viðtali um mál séra Gunnars Sigurjónssonar á Útvarpi Sögu. Gunnar var stuttu fyrir það áminntur fyrir ósæmilega hegðun gagnvart konum á vinnustað hans í Digranes- og Hjallaprestakalli. 

„Við getum ekki sett hvert annað í svona litlu samfélagi í þá stöðu að þurfa að standa með einum og þá upplifir annar að það sé verið að standa gegn sér. Það er mergur málsins,“ segir Arnaldur. 


Tengdar fréttir

Krefjast afsagnar formanns Prestafélagsins vegna viðtals við Útvarp sögu

Félag prestvígðra kvenna krefst þess að Arnaldur Bárðarson formaður Prestafélags Íslands segi af sér vegna ummæla hans í viðtali við Útvarp sögu á dögunum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu félags Prestvígðra kvenna sem gefin er út eftir fund félagsins í Langholtskirkju í gær.

Uppvís að kynferðislegri áreitni í tvígang

Teymi Þjóðkirkjunnar hefur metið sem svo að tíu sinnum hafi sóknarprestur kirkjunnar orðið uppvís að háttsemi sem stríði gegn ákvæðum EKKO-reglugerðar kirkjunnar (reglugerð um einelti, kynbundna og kynferðislega áreitni, sem og annað ofbeldi). Presturinn hefur látið af störfum og áformað er að veita honum áminningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×