Fótbolti

„Töpuðu“ meira en þrjátíu milljörðum á kaupum á tveimur leikmönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antoine Griezmann er aftur orðinn fullgildur leikmaður Atletico Madrid eftir að haga verið á láni hjá félaginu síðasta eina og hálfa árið.
Antoine Griezmann er aftur orðinn fullgildur leikmaður Atletico Madrid eftir að haga verið á láni hjá félaginu síðasta eina og hálfa árið. EPA-EFE/PETER POWELL

Það er óhætt að segja að rekstur fótboltaliðs Barcelona undanfarin ár hafi verið í kennslubók í hvernig á ekki að stýra fótboltafélögum.

Eitt besta og vinsælasta félag heims glímir við gríðarlega fjárhagserfiðleika af þessum sökum og hefur þurft að beita ýmsum brellum til að halda sér gangandi síðustu misseri.

Besta dæmið um skelfilegan rekstur félagsins er kaup á tveimur leikmönnum, fyrst Philippe Coutinho frá Liverpool og svo Antoine Griezmann frá Atletico Madrid.

Barcelona hefur nú náð að selja báða leikmennina en aðeins fyrir brotabrot af því sem félagið keypti þá á fyrir ekki svo mörgum árum.

Barcelona keypti Coutinho á 108 milljónir punda í janúar 2018 en hann fann sig aldrei hjá félaginu, var ítrekað lánaður og loks seldur til Aston Villa fyrir aðeins átján milljónir punda síðasta vor.

Barcelona keypti Griezmann á 120 milljónir punda í júlí 2019 en eins og Coutinho þá fann hann sig ekki hjá Börsungum. Griezmann var lánaður aftur til Atlético Madrid á síðustu leiktíð og sá lánssamningur var svo framlengdur um eitt ár.

Atlético keypti síðan Griezmann í vikunni og borgaði aðeins fyrir hann átján milljónir punda.

Barclona tapaði því 90 milljónum pundum á kaupunum á Coutinho og 102 milljónum punda á kaupunum á Griezmann. Þetta gera samtals 192 milljónir punda eða rétt tæpur 31 milljarður í íslenskum krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×