Innlent

Íslandsmeistarinn í brauðtertugerð er Ísfirðingur

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Gunna Sigga er algjör snillingur að setja saman brauðtertur, hér er hún með eina.
Gunna Sigga er algjör snillingur að setja saman brauðtertur, hér er hún með eina. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hún er ekki lengi að hrista brauðtertur fram úr erminni, hvort sem þær eru með rækjum, túnfiski, skinku, laxi eða einhverju allt öðru. Hér erum við að tala um Íslandsmeistarann í brauðtertugerð, sem býr á Ísafirði en skrapp örstutt til Reykjavíkur til að ná í titilinn.

Gunna Sigga (Guðrún Sigríður Matthíasdóttir)eins og hún er alltaf kölluð á Ísafirði er mikill snillingur þegar kemur að bakstri, matargerð og öllu öðru, sem tilheyrir slíkum eldhússtörfum. Hún sá nýlega auglýst Íslandsmeistaramót í brauðtertugerð í verslun Ormsson í Reykjavík í tilefni 100 ára afmæli verslunarinnar.

Hún brunaði suður, kom við hjá systur sinni og græjaði brauðtertuna og fór með hana í keppnina. Nokkrum klukkutímum síðar fékk hún tilkynningu um að hún hafi unnið. Ástæðan var sú að brauðtertan hennar var svo bragðgóð, falleg og ekki ofhlaðin.

Falleg brauðterta frá Gunnu Siggu.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Þetta var rækjuterta og hún var mjög vestfirsk tertan. Hún var með salatblöðum, sem voru ræktuð í Önundarfirði, sítrónurnar voru líka ræktaðar í Önundarfirði, rækjan var frá Kampa á Ísafirði og ýmislegt annað, sem ég notaði var allt héðan,“ segir Gunna Sigga.

En hvernig er að vera Íslandsmeistari í brauðtertugerð?

„Þetta er rosalega gaman, þetta er öðruvísi, það er gott að það séu til fleiri Íslandsmeistarakeppnir heldur en bara íþróttir.“

Ertu ekki stolt af þessum titli?

„Jú, ég er það, það verð ég að viðurkenna og margir aðrir eru stoltir af mér að hafa gert þetta,“ segir Gunna Sigga.

Gunna Sigga segist fá mikið af pöntunum af allskonar brauðtertum en eftir að hún varð Íslandsmeistari þá hefur síminn ekki stoppað og alls staðar þar sem hún kemur þá er umræðuefnið brauðtertur.

Gunna Sigga fékk 100.000 króna gjafabréf frá Ormsson eftir að hún vann keppnina.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×