Innlent

„Viljum við búa í þannig samfélagi?“

Snorri Másson skrifar

Stjórnarformaður Snarrótarinnar segir að rafbyssuvæðing kunni að auka öryggi lögreglunnar, en ekki almennings. Ekki sé hægt að snúa til baka af þeirri braut ef lögregla vígbýst. Hæstaréttarlögmaður gagnrýnir tímasetningu áforma dómsmálaráðherra um forvirkar rannsóknarheimildir.

Áform Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um það annars vegar að rafbyssuvæða íslensku lögregluna og hins vegar að auka heimildir lögreglu til forvirkra rannsókna á borgurum hafa sætt gagnrýni.

Í grein Vilhjálms Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns er það gagnrýnt að tækifærið sé notað þegar fólk óttast hryðjuverk til að knýja í gegn breytingar.

„Þegar þessi umræða um forvirkar rannsóknarheimildir eða afbrotavörn, eins og menn vilja nú svo snilldarlega kalla þetta, hefur komið upp, hefur lögreglan hrópað „Úlfur, úlfur“ og viðkomandi dómsmálaráðherra hefur brugðist við hvort sem það er Björn Bjarnason, Ögmundur Jónasson eða Jón Gunnarsson,“ sagði Vilhjálmur í samtali við fréttastofu í dag.

Júlía Birgisdóttir, stjórnarformaður samtakanna Snarrótin, sem gætir hagsmuna fólks sem verður fyrir þvingunarúrræðum af hálfu lögreglu, segir að rafbyssuvæðing kunni að auka öryggi lögreglu, en ekki almennings.

Júlía Birgisdóttir, stjórnarformaður Snarrótarinnar.

„Ef það er farið af stað með þessa leið að vígbúast, þá er ekki snúið til baka. Við vindum ekki ofan af því,“ segir Júlía í samtali við fréttastofu.

Þá segir Júlía að hugmyndir dómsmálaráðherra um forvirkar rannsóknarheimildir séu mjög vafasamar.

„Það í rauninni þýðir að við búum þá í lögregluríki. Þá þarftu ekki að hafa gert neitt af þér eða vera grunaður um það til að lögregla megi beita valdheimildum gegn þér. Viljum við búa í þannig samfélagi?“

Ákvarðanir á borð við þessar megi ekki keyra í gegn þegar ótti hafi verið blásinn upp; flest fólk sé skynsamt og viti að svona ákvarðanir eigi að vera teknar að vel ígrunduðu máli, ekki í geðshræringu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×