Atlantshafið gekk á landi á Oddeyrinni í ofsaveðrinu í gær með þeim afleiðingum að sjórinn flæddi inn í hús með tilheyrandi tjóni. Sjávarflóð er eitt af því sem fellur undir Náttúruhamfarartryggingu Íslands.
Matsmenn þeirra koma til Akureyrar á morgun til að leggja mat a tjónið. Óhætt er að fullyrða að það hlaupi á tugum ef ekki hundruð milljónum króna.
Glöð á meðan fólkið fær mat
Nú er sjórinn á bak og burt en þeir sem eiga fyrirtæki hér þurfa að glíma við afleiðingar flóðsins.
„Á svona klukkutíma varð allt orðið á floti og svona fimmtán sentimetra vatn yfir öllu. Það flæddi bara inn um allar fjórar hurðirnar,“ sagði Þórunn Ágústa Garðarsdóttir, eigandi veitingastaðarins Vitans í samtali við fréttastofu í dag.

Þar var allt á floti í gær. Það stoppaði þó ekki eigendur staðarins í því að opna aftur í dag
„Það er mikið skemmt, einhver tæki. Allar hurðir, gólfið. Það verið að skrapa gólfið hérna. Og innréttingar. Það á bara eftir að koma í ljós en að á meðan við getum gefið fólkinu mat þá erum við glöð.“
Braggaparkið á floti
Í næsta nágrenni er Braggaparkið, hjólabrettavöllur Eika Helgasonar. Þar var allt á floti í gær.
„Þetta var svakalegt. Fyrst ætluðum við að moka þessu út en svo föttuðum við að það var ekkert að fara að ganga. Þá tókum við það sem við gátum út og beiluðum út,“ sagði Eiki.
Tjónið er töluvert en hann er ekki af baki dottinn.
„Þetta er allt byggt á óvörðum spítum og krossviði. Maður var ekkert að hugsa um að verja þetta fyrir einhverju veðri hérna inni. Þannig að þetta verður einhver slatti af framkvæmdum framundan.“
Hjá Blikk- og tækniþjónustunni hleypu tjónið á tugum milljóna. Þar eru tvær vélar sem eru meginlífæð fyrirtækisins bilaðar eftir að vatn komst í rafkerfi þeirra. Mikið magn af efni er einnig ónýtt.

„Þessar plötur hér í þessum rekka þær eru faktískt séð ónýtar. Þær eru ekki góð söluvara lengur. Bara efnismagnið sem fór á kaf hérna myndi ég telja að væri á bílinu tuttugu milljónir,“ sagði Jónas Freyr Sigurbjörnsson, eigandi Blikk- og tækniþjónustunnar.