Lífið

Týnd í fjögur ár en heldur nú til fjöl­skyldunnar í Sví­þjóð

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kötturinn Dimma fannst eftir ábendingu um að hún héldi sig í holu undir bílskúr í Hlíðunum.
Kötturinn Dimma fannst eftir ábendingu um að hún héldi sig í holu undir bílskúr í Hlíðunum. samsett/Villikettir

Saga kattarins Dimmu er lyginni líkust. Hún týndist í pössun árið 2018 og hefur verið á vergangi síðan. Nú, fjórum árum síðar, heldur læðan til fjölskyldu sinnar sem er flutt til Svíþjóðar. Fjölskyldan var ansi hissa er þau fengu símtal frá Dýraverndarfélaginu Villikettir sem hafði fundið hana í holu undir bílskúr í Hlíðunum.

Í færslu á Facebook lýsir dýraverndunarfélagið því hvernig þau komust á snoðir um hvar Dimma héldi sig. 

„Villikettir fengu ábendingu um kisu sem var búin að halda sig í Hlíðunum í langan tíma og að hún ætti bæli í holu undir bílskúr. Sjálfboðaliðar settu upp fellibúr og myndavél til að vakta. Eftir nokkra daga kom kisa í búr, hún var skítug og tætt en sem betur fer var hún örmerkt,“ segir í færslunni.

Í færslunni segir að í kjölfar þess að Dimma hvarf árið 2018 hafi mikil leit hafist, miðar hengdir og auglýst eftir henni á samfélagsmiðlum.

„Eigendur voru að vonum mjög hissa og glöð þegar þau fengu símtal um að Dimma væri fundin. En þau voru flutt erlendis og gátu lítið gert.“

Heilsufarsskoðun gekk vel og stefnt er að því að Dimma flytji til fjölskyldu sinnar þegar hún er tilbúin til þess, að því er fram kemur í færslu Villikatta.

„Þessi saga er áminning til allra sem sjá kisur sem grunur er á að séu á vergangi. Dimma var allt of lengi á vergangi og eigendur söknuðu hennar mikið. Þess vegna er svo gott að taka mynd og auglýsa og einnig að láta Villiketti eða Dýrfinnu vita. Hér var líka mikilvægt að Dimma var örmerkt og geld sem er það sem ábyrgir kisueigendur gera,“ segir að lokum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.