Innlent

Ragnar Þór hyggst sækjast eftir forsetaembættinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ragnar Þór ætlar fram.
Ragnar Þór ætlar fram. vísir/vilhelm

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hyggst bjóða sig fram til forseta Alþýðusambands Íslands á þingi sambandsins í október.

Þetta hefur fréttastofa fengið staðfest en það var Kjarninn sem sagði fyrst frá. Kjarninn segir Ragnar hafa greint stjórn VR frá ákvörðuninni í gærkvöldi og starfsmönnum VR í morgun. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu gerir Ragnar Þór ráð fyrir að hætta sem formaður VR nái hann kjöri sem forseti ASÍ. Ragnar Þór var endurkjörinn formaður VR til tveggja ára í mars 2021. 

Ragnar hefur ítrekað sagt við fjölmiðla að hann myndi ekki taka ákvörðun um framboð fyrr en það lægi fyrir hvort ASÍ væri viðbjargandi yfir höfuð. Forsvarsmenn VR og fleiri félaga hafa talað um að „lýðræðisvæða“ þurfi sambandið.

Drífa Snædal, fyrrverandi forseti ASÍ, greindi frá því 10. ágúst síðastliðinn að hún hefði ákveðið að segja af sér. Sagðist hún ekki treysta sér að sinna embættinu áfram og vísaði til samskipta við „ýmsa kjörna fulltrúa innan sambandsins“ og blokkamyndunar sem hefði átt sér stað.

Ljóst var að Drífa var þarna að tala um Ragnar Þór og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, sem höfðu verið afar gagnrýnin á störf hennar og þátt ASÍ í kjarabaráttu launafólks.

Nýr forseti ASÍ verður kjörinn á þingi sambandsins í október.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×