Fótbolti

Klopp: Þetta er fyrsta skrefið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp gat andað léttar eftir sigur Liverpool í kvöld.
Jürgen Klopp gat andað léttar eftir sigur Liverpool í kvöld. Matthew Ashton - AMA/2022 AMA Sports Photo Agency

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var eðlilega kátur eftir 2-1 sigur sinna manna gegn Ajax í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Eftir brösulegt gengi í upphafi tímabils segir hann sigurinn í kvöld vera skref í rétta átt.

„Ég held að allir hafi séð það að við þurftum að gera eitthvað allt öðruvísi í leiknum í kvöld og strákarnir gerðu það,“ sagði Klopp eftir leikinn.

„Við spiluðum vel á móti baráttuglöðum andstæðingum. Við skoruðum fyrsta markið og hefðum átt að skora fleiri, sérstaklega úr föstum leikatriðum.“

Gestirnir í Ajax sköpuðu sér ekki mikið af færum í kvöld, en Mohammed Kudus jafnaði þó metin fyrir þá með frábæru marki eftir tæplega hálftíma leik.

„Ég veit ekki hvort þetta var fyrsta alvöru sóknin þeirra, en Ajax skapaði ekki mikið. Svona er þetta, það getur allt gerst, en þetta var geggjað skot hjá Kudus.“

„Þetta var bara annað próf fyrir okkur. Við vonumst allir til að við séum á leið í rétta átt, en svo getur maður lent í öðru bakslagi og það hefur áhrif á mann. Pressan hjá okkur fyrir markið var mun betri en eftir markið. Við féllum aðeins niður, en við verðum að gera hlutina rétt.“

„Vinnan er ekki búin. Þetta er fyrsta skrefið. Mjög mikilvægt skref. Nú tekur við skrýtin pása sem er frekar löng. En Brighton bíður,“ sagði Klopp að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×