Innlent

Ætla að sækja allar hækkanir í fjár­laga­frum­­varpinu aftur í kjara­­samningum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Ragnar Þór er formaður VR. 
Ragnar Þór er formaður VR.  vísir/vilhelm

For­­maður VR segir fyrir­­hugaðar skatta­hækkanir í nýju fjár­laga­frum­­varpi koma til með að hafa bein á­hrif á kröfur fé­lagsins við komandi kjara­­samnings­­gerð. Hann hefði viljað sjá stórar að­­gerðir eins og leigu­þak í frum­­varpinu til að sporna gegn verð­bólgunni.

Hærra vörugjald á bif­reiðum og hækkun skatta á bensíni, tóbaki og á­fengi eru á meðal þess sem finna má í nýju fjár­laga­frum­varpi ríkis­stjórnarinnar sem kynnt var í gær.

Hags­muna­sam­tök og verka­lýðs­fé­lög hafa bent á að þetta muni hafa mest á­hrif á lág- og meðal­tekju­fólk og auka við verð­bólguna.

„Það er alveg ljóst að sá kostnaðar­auki sem fyrir­tæki hafa verið að velta út í verð­lagið, bæði vegna hækkandi hrá­vöru­verðs og svo á­standsins í heiminum, að það hafa engar til­raunir verið gerðar neins staðar í okkar sam­fé­lagi til að sýna sam­fé­lags­lega á­byrgð og reyna að halda verð­bólgunni í skefjum,“ segir Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR.

Vegna þess muni fé­lagið reikna út aukinn kostnað í dag­legu lífi sinna fé­lags­manna vegna verð­bólgunnar og setja hann beint inn í kröfur sínar í komandi kjara­við­ræðum í haust.

Fjár­laga­frum­varpið mun koma til með að hafa bein á­hrif á þær kröfur að sögn Ragnars.

„Já að sjálf­sögðu. Af hverju ættum við að gefa eitt­hvað eftir í okkar kröfum. Af hverju eigum við ekki að velta kostnaðar­auka okkar heimilis inn í okkar launa­kröfur, sem að aftur er okkar gjald fyrir að skapa hér verð­mæti í okkar sam­fé­lagi. Þannig ég sé enga á­stæðu til annars en að við förum að haga okkur eitt­hvað öðru­vísi en fyrir­tækin hafa verið að gera, fjár­mála­kerfið og eins og ég segi við munum setja þetta beint út í kröfu­gerðina. Það er bara ekkert flóknara en það,“ segir hann.

Vill leiguþak eins og hjá Dönum

Hann saknar þá beinna að­gerða til að stemma stigu við verð­bólgunni í fjár­laga­frum­varpinu eins og ríki í kring um okkur hafi verið að gera.

„Og þá kannski fyrst og fremst varðandi hús­næðis­málin. Það er ekkert sem bendir til annars en að ríkið sé frekar að draga úr stuðningi frekar en hitt og maður skilur bara ekki á hvaða veg­ferð ís­lenska ríkis­stjórnin er á,“ segir Ragnar.

Hann hefði viljað sjá frekari á­form um upp­byggingu á hús­næði og leigu­þak, líkt og Danir eru að koma á hjá sér.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×