Fótbolti

Hætt við mínútu þögn í Skotlandi vegna óláta áhorfenda

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tilraun var gerð til mínútu þagnar til að heiðra minningu Bretlandsdrottningar.
Tilraun var gerð til mínútu þagnar til að heiðra minningu Bretlandsdrottningar. Ian MacNicol/Getty Images

Áhorfendur sem gerðu sér ferð á Tynecastle-völlinn í Edinborg að sjá leik Hearts og Istanbul Basaksehir í gærkvöld höfðu lítinn áhuga á að virða minningu Elísabetar II Bretadrottningar. Fyrirhuguð mínútu þögn varð kaótísk.

Leikur liðanna hófst stundarfjórðungi fyrir klukkan sex á staðartíma en tilkynnt var um fráfall drottningarinnar um 45 mínútum síðar, klukkan hálf sjö. Tekin var ákvörðun í leikhléi að minning drottningarinnar skyldi heiðruð með mínútu þögn áður en síðari háfleikurinn færi af stað.

Leikmenn beggja liða komu sér fyrir á miðjuboganum, ásamt dómurum leiksins, líkt og hefð er fyrir. Eftir flaut dómarans sem gaf til kynna um upphaf mínútunnar brast fram mikið baul úr stúkunni, ásamt öskrum, almennum blótsyrðum og dónaskap.

Einhverjir stuðningsmenn heyrðust syngja þjóðsöng Breta, God Save the Queen, sem uppskar enn frekara baul frá háværum meirihlutanum.

Þegar tæplega hálf mínúta var liðin af fyrirhugaðri mínútu sá pólski dómarinn Krzysztof Jakubik sig tilneyddan að flauta á ný til að marka enda minningarathafnarinnar.

Leikur liðanna var sá fyrsti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar en gestirnir frá Tyrklandi, sem slógu Breiðablik úr keppni fyrr í sumar, unnu sannfærandi 4-0 útisigur.

Hér má sjá myndskeið af atvikinu á heimasíðu Edinburgh Evening News.


Tengdar fréttir

Vaktin: Stór dagur fram­undan í Bret­landi

Elísabet II Bretadrottning lést í gær, 96 ára að aldri, í faðmi fjölskyldu sinnar í Balmoral kastala í Skotlandi. Karl sonur hennar er  nú orðinn konungur Bretlands en hann mun ávarpa þjóð sína í fyrsta sinn sem konungur hennar í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.