Innlent

Ó­venju­mörg sjúkra­flug á Reykja­víkur­flug­velli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tvær sjúkraflugvélar á Reykjavíkurflugvelli í morgun.
Tvær sjúkraflugvélar á Reykjavíkurflugvelli í morgun.

Óvenjulega mikið er að gera í sjúkraflugi á Reykjavíkurflugvelli í þessari viku. Rekstrarstjóri flugþjónustu á vellinum man ekki eftir öðru eins.

Flugvélar sem sinna sjúkraflugi innanlands lenda reglulega á vellinum. Flugfélagið Mýflug flaug 827 sinnum með sjúklinga árið 2021 sem var töluverð fjölgun á milli ára. En það eru ekki bara innlendir aðilar sem fljúga með sjúklinga.

Hákon Einarsson, rekstrarstjóri ACE FBO, segir mikið að gera í sjúkraflutningum þessa vikuna hvað varðar flug erlendis frá.

„Ég held það séu sex það sem af er þessari viku,“ segir Hákon. Um væri að ræða líffæraflutninga þar sem líffæri eru flutt úr nýlátnum einstaklingi til að nýtast öðrum. Auk þess væri nokkuð um að erlendir ferðamenn væru fluttir úr landi eftir að hafa slasað sig hér á landi.

„Svo eru tvö börn sem þurftu að fara út í mjög mikilvægar aðgerðir erlendis.“

Hann rekur ekki minni til þess að hafa séð svona margar flugvélar á nokkrum dögum.

„Yfir allt árið eru þetta kannski fimm vélar í mánuði,“ segir Hákon.

Fjöldi einkaflugvéla á flugvellinum undanfarin ár, sérstaklega yfir sumartímann, hefur vakið mikla athygli. Mikil fjölgun hefur orðið í komum einkaflugvéla samhliða fjölgun ferðamanna almennt. Hákon segir gott að hafa í huga að það séu fleiri en ríkir erlendir glaumgosar sem nýti Reykjavíkurflugvöllinn. Nálægð flugvallarins við Landspítalann skipti miklu máli.

„Hann er mikilvægur fyrir erlent sjúkraflug og skiptir máli að hafa sjúkrahúsið í bakgarðinum.“

Sjúkraflugið er mest megnis til Norðurlandanna og þá helst til Gautaborgar í Svíþjóð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×