Innlent

Otaði hnífi að fólki á veitingastað um miðjan dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan á Norðurlandi eystra hafði í mörg horn að líta um helgina. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögreglan á Norðurlandi eystra hafði í mörg horn að líta um helgina. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Tryggvi Páll

Lögreglan á Norðurlandi eystra segir mann hafa verið handtekinn um miðjan dag í gær eftir að hann otaði hnífi að fólki á veitingastað á Akureyri. Hann er sagður hafa otað hnífnum að starfsfólki og viðskiptavinum og haft í hótunum við lögregluþjóna.

Í færslu á Facebook, þar sem farið er yfir verkefni lögreglunnar um helgina, segir að maðurinn hafi verið í annarlegu ástandi og honum hafi verið sleppt fyrr í dag.

Alls munu 177 bókanir liggja fyrir í dagbók lögreglu frá föstudagsmorgni til sunnudagsmorguns. Þar á meðal er slys sem varð í Grjótgjá í Mývatnssveit á í gær (laugardag). Erlendur ferðamaður féll rúma fjóra metra í sprungu. Kona var slösuð og flutt á sjúkrahús á Akureyri til aðhlynningar.

Auk lögreglu komu meðlimir björgunarsveitarinnar Stefáns í Mývatnssveit, slökkviliðsmenn og aðrir að björgun konunnar.

Þá voru höfð afskipti af tveimur mönnum við Bogann í gær vegna gruns um fíkniefnamisferli. Engin fundust fíkniefnin en annar mannanna var með hnúajárn og var kærður fyrir vopnalagabrot.

Lögregluþjónar aðstoðuðu einnig við leit að stúlku sem hafði strokið frá vistheimili á vegum barnaverndar, bæði á föstudag og laugardag. Hún fannst í bæði skiptin.

Lögreglunni barst einnig tilkynning um dauða Andarnefju á floti í Eyjafirði í gær. Sú tilkynning barst frá hvalaskoðunarfyrirtæki.

Þá segir einnig í áðurnefndri Facebookfærslu að tilkynningar um kannabislykt í fjölbýlishúsum hafi aukist. Kannabisefni séu ólögleg á það þurfi að hafa í huga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×