Innlent

„Fjárskorturinn er slíkur að hann bitnar á þeim sem dvelja þarna“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Grímur Atlason
Grímur Atlason vísir/egill

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að hér á landi þurfi nýja hugsun og nýja nálgun á geðheilbrigðismálin. Algert forgangsmál sé að bæta aðbúnað á geðdeildum og setja umtalsvert meira fjármagn í geðheilbrigðismálin. Í ársskýrslu umboðsmanns Alþingis er fjallað um eftirlitsferð umboðsmanns á bráðageðdeild Landspítala.

„Það vakti til dæmis strax athygli umboðsmanns við heimsókn á bráðageðdeild Landspítala, þar sem möguleikar á útiveru eru af skornum skammti, að svo virtist sem gluggar þar hefðu ekki verið þvegnir um langt skeið,“ segir í skýrslu umboðsmanns Alþingis.

Grímur segir úrbóta þörf hið fyrsta.

„Fjárskorturinn er slíkur að hann bitnar á þeim sem dvelja þarna með þeim hætti til dæmis að þeir fá ekki að fara út. Eru svo dögum skiptir inni á herbergjum og ýmislegt annað sem er bara mannréttindabrot og verður að hætta. Á þetta hefur umboðsmaður Alþingis bent.“

Sjá nánar: Ákvarðanir um sjúklinga á lokuðum geðdeildum teknar í lagalegu tómarúmi

Til að undirstrika fjárþörfina í geðheilbrigðismálum sagði Grímur að fyrirkomulagið hvað geðheilbrigðismálin varðar væru eins og: „5-25“. Fimm prósent af fjármagninu færi í geðheilbrigðismálin á meðan umfangið væri 25%.

„Það sér það hver maður að það vantar talsvert upp á svo hægt sé að hlúa að fólki með mannsæmandi hætti.“

Í árskýrslunni segir þá jafnframt að fleiri þættir en hinir lagalegu hefðu þýðingu og þyrfti að lagfæra. Í eftirlitsferð umboðsmanns fékk hann þau svör frá starfsfólki að ástæðan fyrir ófullnægjandi aðbúnaði og takmarkaðri útiveru sjúklinga stöfuðu af fjárskorti. Þá stendur í skýrslunni að það þyrfti ekki að koma á óvart að burðir deildarinnar til að sjá sjúklingum fyrir iðju og áhugamálum væru einnig takmarkaðir.


Tengdar fréttir

Mann­réttinda­brot framin á stofnunum landsins „nær dag­lega“

Sveinn Rúnar Hauksson og Héðinn Unnsteinsson segja að brotið sé á mannréttindum sjúklinga á geðdeildum landsins „nær daglega.“ Í pistli sem þeir skrifa benda þeir á að það séu ekki fullnægjandi heimildir í lögum fyrir þeim þvingandi aðgerðum sem sjúklingar á geðdeildum landsins séu beittir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×