Innlent

Veittist að kærustunni fyrir framan dóttur hennar

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var ákærður fyrir brot í nánu sambandi og brot gegn barnaverndarlögum.
Maðurinn var ákærður fyrir brot í nánu sambandi og brot gegn barnaverndarlögum. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa veist í tvígang að þáverandi kærustu sinni og þar af í eitt skipti fyrir framan dóttur hennar.

Maðurinn var ákærður fyrir brot í nánu sambandi og brot gegn barnaverndarlögum, en brotin sem ákært var fyrir voru framin í október 2020 og í júlí 2021.

Í ákæru segir að maðurinn hafi í fyrra skiptið veist með ofbeldi að konunni á heimili hennar í Reykjavík, tekið hana hálstaki í nokkur skipti þannig að hún átti erfitt með andardrátt, slegið hana ítrekað með lófa og hnefa í líkamann, þar á meðal í höfuð og andlit, og sparkað hana víðs vegar um líkamann. Hlaut konan ýmsa áverka á höfði og andliti, heilahristing og mar víðs vegar um líkamann.

Í júlí 2021 veittist maðurinn aftur að konunni á heimili þeirra og í þetta skiptið að dóttur konunnar viðstaddri. Ýtti maðurinn kærustu sinni upp að skáp og sló hana í andliti, auk þess að sýna henni „vanvirðandi, ruddalega og ósiðlega háttsemi“, líkt og segir í dómnum. Hlaut konan mar og upphandlegg og glóðarauga.

Þau slitu samvistum hálfum mánuði eftir fyrri árásina en tóku svo upp samband á ný og vörðu miklum tíma saman eftir að ákærði hafði tekið á sínum málum.

Maðurinn játaði skýlaust brot sín. Fram kemur að eigi að baki sakaferil sem nái aftur til ársins 2013, meðal annars fyrir fíkniefnalagabrot, umferðarlagabrot og ofbeldisbrot.

Í dómnum segir að honum hafi verið gert að greiða málsvernarþóknun skipaðs verjanda og annan sakarkostnað, samtals um 400 þúsund krónur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×